Umfjöllun og viðtöl: Valur - Haukar 25-22 | Valur í úrslit eftir að hafa sópað út Haukum

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
vísir/bára


Valskonur eru komnar í úrslitaeinvígið í handbolta kvenna annað árið í röð. Valur vann Hauka í kvöld í þriðja leik undanúrslitanna og kláruðu þannig einvígið 3-0. 

 

Leikurinn fór hægt af stað en Haukar reyndu að hægja á leiknum með sínum sóknarleik. Staðan í hálfleik var 12-10 fyrir Val en bæði lið voru að spila vel. Lovísa Thompson og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir héldu uppi sóknarleik Vals en Lovísa var dugleg að finna Önnu á línunni. 

 

Liðin skiptust á mörkum í upphafi seinni hálfleiks en Haukar náðu völdum eftir tæpar tíu mínútur af seinni hálfleik. Haukar komust í 17-19 en þær voru duglegar að nýta sér þegar Valur tapaði boltanum. Haukar voru líka duglegar að komast á vítalínuna en þær fengu 9 víti í kvöld. 

 

Valsliðið var fljótt að jafna í stöðuna 19-19. Haukar fengu tvö víti í röð í þeirri stöðu en Berta Rut Harðardóttir sem hafði átt góðan leik þangað til skaut framhjá markinu í báðum vítunum. Valsliðið hélt áhlaupinu sínu áfram og komst í stöðuna 23-19. Haukar náðu aðeins að klóra í bakkann fyrir leikslok en það var ekki nóg.

 

 

Af hverju vann Valur?

Valur setti í lás með korter eftir af leiknum. Skv. HBStatz var Valur með 43 löglegar stöðvanir í leiknum sem er náttúrulega bara geggjuð vörn. Þær fengu bara á sig 3 mörk á loka korterinu og unnu þannig leikinn. 

 

Hverjar stóðu upp úr?

Lovísa Thompson og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir voru stórkostlegar í kvöld. Lovísa náði trekk í trekk að finna Önnu Úrsúlu á línunni en hún var líka að finna fleiri leikmenn og endaði leikinn með 8 stoðsendingar. Anna Úrsúla var að klára vel á línunni og Lovísa sömuleiðis úr skyttu stöðunni. Lovísa endaði með 6 mörk og Anna Úrsúla með 5 mörk. Síðan voru þær ekkert slakar í vörn heldur en Lovísa var með 16 löglegar stöðvanir og Anna Úrsúla var með 2 stolna bolta, 3 varin skot og 4 löglegar stöðvanir. 

 

Alina Molkova kom inn í vinstra hornið og var að klára mjög vel en hún skoraði 4 mörk úr 5 skotum. Gerður Arinbjarnar stóð eins og oft áður vaktina með Önnu Úrsúlu í hjarta varnarinnar mjög vel. Síðan var Íris Björk með róleg 39% í markinu hjá Val. 

 

Karen Helga Díönudóttir var flott hjá Haukum þegar þær komust yfir. Hún sýndi mikla baráttu og fiskaði meðal annars tvö víti þegar hún var að berjast um fráköst. Hún nýtti færin sín ágætlega en hún skoraði 3 mörk úr 6 skotum auk þess sem hún stal 2 boltum í vörninni.

 

Hvað gekk illa?

Haukar náðu ekki að klára sóknirnar sínar undir lokinn. Þær skora einungis þrjú mörk á seinasta korterinu en það er langt frá því að vera nógu gott á móti liði eins og Val.

 

Hvað gerist næst?

Haukar fara í sumarfrí. Úrslitaeinvígi Vals og Fram hefst síðan fljótlega og það ætti að vera Reykjavígurslagur af bestu gerð.

 

 

 

Gústi Jó: Kallinn bara algjörlega búinn

Valur var á tímapunkti í seinni hálfleik undir 19-17. Þá tók Gústi leikhlé og Valur vann restina af leiknum 8-3 og sýndu mikla yfirburði í restina. 

 

„Við slökuðum aðeins á þarna á kafla. Það var dálítið hár púls á tímabili og stelpurnar voru kannski aðeins of staðráðnar í að vinna þetta. Við vorum að flýta okkur of mikið. Við slökuðum síðan á og stilltum varnarleikinn aðeins. Við náðum bara í góðan sigur,” sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals eftir leik kvöldsins.

 

Valur töpuðu ekki leik í einvíginu og voru allir leikirnir voru nokkuð þægilegir sigrar. Gústi var samt ekki tilbúinn að segja að sigurinn hafi verið öruggur allan tímann.

 

„Auðvitað var þetta í hættu á einhverjum tímapunkti. Haukar eru með frábært lið og mikla breidd. Við spilum bara frábæran varnarleik allt einvígið og vörnin í dag var virkilega góð. “

 

Haukar voru oft að taka langar sóknir sóknir en Valsvörnin slakaði aldrei á. Gústi var ánægður með vörnina eftir leikinn.

 

„Við stóðum lengi í vörn, við vorum í vörn 70% af leiknum. Það var erfitt og reyndi mikið á liðið.” 

 

„Stelpurnar sýndu bara mikinn karakter. Þær sýna jafna og góða spilamennsku í gegnum allt einvígið. Liðsheildin var feykilega öflug hjá okkur og ég er bara gríðarlega sáttur við þetta.” 

 

Framundan er úrslitaeinvígi gegn Fram. Liðin mættust í úrslitaeinvíginu í fyrra líka og er nokkuð öruggt að segja að þetta séu tvö bestu lið landsins.

 

„Akkúrat núna er kallin bara algjörlega búinn sko. Ég verð orðinn fínn eftir helgi og er bara spenntur fyrir að mæta Fram. Fram er með frábært og velmannað lið. Við erum það líka og framundan er bara skemmtilegt einvígi.” 

 

Magnús: Náðum aldrei að skora meira en 22 mörk

Haukar náðu tökum á leiknum á stuttum kafla í seinni hálfleik. Eftir að þær komust yfir með tveimur mörkum misstu þær alveg dampinn og töpuðu þessu fljótt niður.

 

„Þær náðu bara að loka vörninni hjá sér. Þær ná síðan nokkrum hraðaupphlaupum og komu sér þannig aftur inn í leikinn, ” sagði Magnús Sigmundsson þjálfari Hauka eftir leik kvöldsins. 

 

Haukar reyndu að spila með tvær á línunni fyrst þegar þær byrjuðu að missa forystuna sína. Þær skoruðu ekki mark þegar þær voru með auka línumann þrátt fyrir að hafa spilað 5 sóknir þannig.

 

„Nei við vorum ekki búin að æfa þetta mikið. Það gekk ekki í þetta skipti allavega, þetta þétti svolítið bara vörnina hjá Val. Þær sýndu mikinn karakter í restina að klára þetta.” 

 

Valsvörnin er frábær og Haukar náðu aldrei að brjóta hana niður í einvíginu. Haukar náðu að spila fínan varnarleik en það var ekki nóg.

 

„Við náum aldrei að skora meira en 22 mörk á móti þeim. Það segir dálítið um þetta einvígi. Þær eru sterkar varnarlega með góðan markmann. Þær keyra þessi hraðaupphlaup mjög vel sem við náum aldrei að leysa almennilega.” 

 

Magnús hafði lítið að segja um næsta tímabil á Ásvöllum.

 

„Næsta tímabil verður vonandi bara gott hjá Haukum.” 

 

Lovísa: Maður vill alltaf verða Íslandsmeistari

„Þetta var bara gaman í dag. Það var bara gott að geta klárað þetta á heimavelli,” sagði Lovísa Thompson leikmaður Vals.

 

Lovísa fór á kostum í vörninni hjá Val í kvöld og var með 16 löglegar stöðvanir.

 

„Uppleggið er alltaf að spila góða vörn. Það er gaman að ná að brjóta svona oft það er bara plús.” 

 

Valur spilar á móti Fram í úrslitaeinvíginu. Liðin mættust líka í bikarúrslitum og í gegnum tíðina hefur alltaf verið mikill rígur á milli félaganna.

 

„Þetta leggst ótrúlega vel í mig. Það er búin að vera mikil barátta á milli þessara tveggja liða í vetur. Þetta er bara mjög spennandi.” 

 

Verður þú Íslandsmeistari í vor?

 

„Maður vill alltaf verða Íslandsmeistari og ég vona að það endi þannig.” 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira