Körfubolti

Fleiri oddaleikir í kvöld en í allri úrslitakeppninni í fyrra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það verður örugglega hart barist í Njarðvík í kvöld. Hér eru Ólafur Helgi Jónsson og Matthías Orri Sigurðarson í baráttu um boltann í síðasta leik.
Það verður örugglega hart barist í Njarðvík í kvöld. Hér eru Ólafur Helgi Jónsson og Matthías Orri Sigurðarson í baráttu um boltann í síðasta leik. Vísir/Bára
Þetta er stórt kvöld fyrir Domino´s deild karla í körfubolta því í kvöld ræðst það hvaða tvö lið tryggja sér síðustu sætin í undanúrslitum úrslitakeppninnar.

Tindastóll, Þór Þorlákshöfn, Njarðvík og ÍR lifa enn í voninni um að komast í hóp fjögurra bestu liða landsins. Tindastóll og Njarðvík eru á heimavelli, komust bæði í 2-0 og fá því þriðja leikinn í röð til að klára dæmið. Lið Þórs og ÍR eru að spila upp á líf eða dauða í þriðja leiknum í röð.

Í allri úrslitakeppninni í fyrra var „aðeins“ einn oddaleikur en það var oddaleikur Hauka og Keflavíkur í átta liða úrslitunum. Haukar unnu þar 72-66 sigur.

Það eru því fleiri oddaleikir á dagskránni í kvöld en alla úrslitakeppnina í fyrra.

Stöð 2 Sport mun sýna báða leiki kvöldsins í beinni. Leikur Tindastóls og Þórs hefst klukkan 18.30 en leikur Njarðvíkur og ÍR strax á eftir eða klukkan 20.15. Domino's körfuboltakvöld mun halda utan um allt kvöldið en útsendingin hefst klukkan 18.00.

Domino's Körfuboltakvöld er á sínu fjórða ári en þetta verður í fyrsta sinn í sögu þess þar sem verða tveir oddaleikir á sama tíma.

Síðast voru tveir oddaleikir á sama tíma fimmtudaginn 2. apríl 2015 en það var Skírdagur. Domino's Körfuboltakvöld var sett á laggirnar haustið eftir og hefur verið fastur liður á Stöð 2 Sport síðan.  

Það hafa ekki verið fleiri oddaleikir í átta liða úrslitunum í átta ár eða síðan það voru þrír í átta liða úrslitunum 2011. Þá þurfti bara að vinna tvo leiki til að komast í undanúrslitin. Allir oddaleikirnir fór fram 23. mars 2013 en aðeins einn þeirra var sýndur beint.

Oddaleikjasaga liðanna í oddaleikjum kvöldsins

(Tölur úr sögu úrslitakeppninnar 1984-2018)

Njarðvík - 24. oddaleikur félagsins (14 sigrar, 9 töp)

Tindastóll - 8. oddaleikur félagsins (3 sigrar, 4 töp)

ÍR - 7. oddaleikur félagsins (1 sigur, 5 töp)

Þór Þorl. - 3. oddaleikur félagsins (1 sigur, 1 tap)

- Njarðvík er 7-1 í oddaleikjum í átta liða úrslitum

- Tindastóll er 2-3 í oddaleikjum í átta liða úrslitum

- ÍR er 1-4 í oddaleikjum í átta liða úrslitum

- Þór Þorl. er 1-1 í oddaleikjum í átta liða úrslitum



Oddaleikir í úrslitakeppni karla síðustu ár:

2019 - 2

2018 - 1

2017 - 2

2016 - 2

2015 - 2

2014 - 1

2013 - 3

2012 - 2

2011 - 4

2010 - 4

2009 - 2



Oddaleikir í átta liða úrslitum síðustu ár:

(Fyrir 2014 þurfti bara að vinna tvo leiki)

2019 - 2

2018 - 1

2017 - 1

2016 - 1

2015 - 2

2014 - 0

2013 - 2

2012 - 2

2011 - 3

2010 - 2

2009 - 1

Flestir oddaleikir félaga frá 2009:

Stjarnan 8 (3-5)

Keflavík 8 (2-6)

Njarðvík 7 (3-4)

KR 6 (5-1)

Snæfell 6 (5-1)

Grindavík 6 (3-3)

Haukar 3 (2-1)

Þór Þorl. 2 (1-1)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×