Umfjöllun og viðtöl: Valur - Fram 23-27 | Fram skemmdi bikarveisluna

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Deildarmeistarar Vals.
Deildarmeistarar Vals. vísir/daníel þór
Fram vann í kvöld Val 27-23 í lokaumferð Olís deildar kvenna. Leikurinn fór fram í Origo-höllinni en fyrir leikinn voru Valskonur búnar að tryggja sér deildarmeistaratitilinn og voru þar af leiðandi einungis að spila um heiðurinn í kvöld. 

 

Leikurinn var jafn framan af en Sandra Erlingsdóttir byrjaði mjög vel fyrir Val og skoraði fyrstu þrjú mörkin þeirra. Staðan var samt 4-4 eftir tæplega mínútur en þá tók Fram yfir leikinn. Fram tók 6-3 áhlaup á næstu mínútum og sýndu mikla yfirburði. Varnarleikur Vals var sérstaklega slakur í fyrri hálfleik en Anna Úrsúla Guðmundsdóttir var ekki með og það sást vel á varnarleiknum. Ragnheiður Júlíusdóttir var áberandi hjá Fram í þessu áhlaupi en hún skoraði þrjú mörk í röð úr stöðunni 4-3 fyrir Val. 

 

Fram héldu áfram að sýna yfirburði sína út fyrri hálfleikinn en staðan í hálfleik var 16-10 fyrir Fram. Besta dæmið um yfirburði Fram í fyrri hálfleik var sirkusmark sem Þórey Rósa skoraði úr horninu eftir að Fram hafði sundurspilað Valsvörnina. Fram náðu aftur og aftur að opna þessa vanalega frábæru Valsvörn. Sóknarleikur Vals var mjög óagaður og oft á tímum voru þær eiginlega bara í keppni hvor var á undan í að taka ótímabært skot. 

 

Fram byrjaði seinni hálfleikinn betur en Díana Dögg Magnúsdóttir fékk í stöðunni 17-12 fyrir Fram nóg af að vera undir. Díana skoraði 6 af næstu 9 mörkum Vals ásamt því að fiska tvær mínútur á Steinunni Björnsdóttur. Valskonur náðu að minnka muninn niður í 22-21 með betri varnarleik og nokkrum einstaklings framtökum hjá Díönu sóknarlega. Í þessari stöðu 22-21 tók Stefán Arnarson þjálfari Fram leikhlé og náði að róa sinn mannskap. Eftir leikhléið hans Stefáns skoruðu Fram sitt fyrsta mark í fimm mínútur en Sandra Erlingsdóttir fiskaði víti í næstu sókn Vals. Sandra þurfti því miður að fara meidd af velli eftir að brotið var á henni en eftir að Ásdís Þóra Ágústsdóttir skoraði úr vítinu þá skoruðu Valskonur einungis eitt mark á 9 mínútum. Fram skoraði hinsvegar 4 mörk í viðbót og kláraði leikinn nokkuð þægilega með 4 marka sigri. 

 

 

Af hverju vann Fram?

Fram spilaði þennan leik mjög vel. Þær spiluðu frábærlega í fyrri hálfleik og  náðu að standa af sér áhlaup Vals í seinni hálfleik. Þær nýttu sér mjög vel að Anna Úrsúla var ekki inni í Valsvörninni og sömuleiðis að sóknarleikur Vals var alls ekki nægilega agaður.

 

Hverjar stóðu upp úr?

Steinunn Björnsdóttir var maður leiksins í kvöld. Hún gerði mjög vel á línunni sóknarlega en hún skoraði 6 mörk úr 7 skotum ásamt því að vera með 3 stoðsendingar. Spilaði líka vel varnarlega en hún var með 5 löglegar stöðvanir og 2 varin skot. Karen Knútsdóttir var líka mjög góð í kvöld báðu megin en hún var með 4 mörk og 5 löglegar stöðvanir. 

 

Ragnheiður Júlíusdóttir og Erla Rós Sigmarsdóttir voru báðar mjög góðar í fyrri hálfleik en duttu niður í seinni. Ragnheiður var allt í öllu sóknarlega hjá Fram í fyrri en fann ekki taktinn í seinni hálfleik. Erla Rós átti sömuleiðis stóran þátt í forskotinu í hálfleik en síðan náði hún varla að klukka bolta í seinni, 9 af hennar 10 vörðu skotum voru í fyrri hálfleik.

 

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Vals var nokkuð slakur allan leikinn. Þær tóku mikið af ótímabærum skotum en þegar þær reyndu að nýta sóknirnar sínar þá töpuðu þær oft boltanum en þær voru með 19 tapaða bolta í kvöld. Meiri segja þegar þær tóku áhlaupið sitt var það ekki endilega af því að skotvalið hafi batnað heldur meira af því að þær fóru að skoru úr ótímabæru skotunum. Lovísa Thompson var óvenju áberandi í þessu lélega skotvali Vals en hún var með afar slaka nýtingu í kvöld, 4/15. Þessi vanalega frábæri sóknarmaður var oft að þvinga hlutina frekar en að leyfa skotunum að koma til sín og tók of mikið af skotum snemma í sóknum í kvöld.

 

Vörnin hjá Val í fyrri hálfleik var ekki upp á marga fiska. Fram voru að skora úr öllum stöðum auk þess sem Valur náði ekki að stela neinum boltum. 

 

Tölfræði sem vekur athygli:

19- Tapaðir boltar hjá Val. Þarf ekki að eyða fleiri orðum í þetta en það er auðvitað ekki hægt að vinna lið eins og Fram með 19 tapaða bolta. 

 

6- Hraðaupphlaupsmörk hjá Fram en Valur náðu ekki í eitt einasta mark úr hraðaupphlaupi í kvöld.

 

Hvað gerist næst?

Næst byrjar veislan, úrslitakeppnin sjálf. Bæði þessi lið eru með heimaleikjarétt í undanúrslitum og það er ágætlega líklegt að þau mætist aftur í úrslitaeinvíginu. Valur fær Hauka í undanúrslitum á meðan Fram fá ÍBV í heimsókn.

 

Ágúst: Betri tilfinning að fá medalju en að tapa

„Það er betri tilfinning að fá medalju í kringum hálsinn en að tapa leiknum. Við vorum ekki að spila nægilega vel í fyrri hálfleik og Fram áttu bara skilið að vinna í kvöld,” sagði Ágúst Þór Jóhannesson þjálfari Vals eftir tapið. Eftir leikinn fengu Valur afhent verðlaunin fyrir deildarmeistaratitilinn. 

 

Valur voru næstum því búnar að koma tilbaka í seinni hálfleik en náðu þó aldrei að jafna. Gústi var ekki nægilega ánægður með hvernig Valsliðið nýtti sóknirnar þegar þær hefðu getað jafnað.

 

„Það vantaði herslumuninn þau skipti þar sem við gátum jafnað þetta. Við förum illa með færi og gerum klaufa mistök en við vorum bara ekki að spila nægilega vel í kvöld.” 

 

Er hægt að taka eitthvað jákvætt úr þessum leik?

 

„Við getum tekið margt jákvætt út úr þessu. Sóknarleikurinn var að mörgu leyti góður, sóknarlega sérstaklega. Við náðum aðeins bæta varnarleikinn og auka tempóið en núna er bara spurning um að safna kröftum fyrir undanúrslitin og vera tilbúin fyrir laugardaginn.” 

 

Haukar og ÍBV mættust í kvöld í leiknum sem ákvað hvaða lið endaði í þriðja sæti. Haukar töpuðu, enda í fjórða sæti og mæta þar af leiðandi Val í undanúrslitum. 

 

„Já ég er nú bara að heyra þetta núna. Alveg sama hvort við værum að mæta ÍBV eða Haukum værum við að mæta erfiðum andstæðing. Við berum mikla virðingu fyrir þeim og þurfum bara að ná góðri frammistöðu til að klára það.” 

 

Stefán: Hlökkum til að fara enn eina Herjólsferðina

„Í fyrri hálfleik spiluðum við mjög góðan varnarleik og markvarslan var góð. Sóknarleikurinn var mjög hraður og góður hjá okkur. Við gerðum bara heilt yfir vel,” sagði Stefán Arnarson þjálfari Fram um fyrri hálfleik leiksins. 

 

„Við vissum að það kæmi áhlaup frá Val. Það kom og við stóðum það af okkur. Við hefðum kannski mátt vera aðeins skynsamari í seinni hálfleik,” sagði Stefán um áhlaup seinni hálfleikinn en Fram náðu að standa af sér sterkt áhlaup frá Val. 

 

Stefán sagði í viðtali við Stöð 2 Sport eftir síðasta leik að Valur væri sterkasta lið deildarinnar. Fram sýndu hinsvegar í kvöld að það er möguleiki bara alls ekki satt hjá Stefáni.

 

„Það sem ég segi alltaf er að þar sem Valur er deildarmeistari þá eru þær sterkari. Það er bara þannig að þær eru númer eitt.”  

 

Haukar og ÍBV mættust í kvöld í leiknum sem ákvað hvaða lið endaði í þriðja sæti. ÍBV vann leikinn, enda þriðja sæti og mæta þar af leiðandi Fram í undanúrslitum. 

 

„Ég sagði fyrir leik að það breyti ekki öllu hvort við fáum ÍBV eða Hauka. Bæði lið eru mjög góð og við hlökkum bara til að fá að fara enn eina Herjólsferðina, við erum vön því.” 

 

Díana:Höfum alltaf trú á að geta orðið Íslandsmeistarar

„Fyrri hálfleikur varð okkur að falli í þessum leik. Við erum sex mörkum undir í hálfleik og það er bara allt of mikið á móti þessu liði,” sagði Díana Dögg Magnúsdóttir leikmaður Vals eftir leik kvöldsins. 

 

Seinni hálfleik var miklu betri hjá Val og voru þær á tímapunkti næstum því búnar að vinna tilbaka 6 marka foyrstu Fram. 

 

„Vörnin okkar small saman og við fórum að ná fríköstum.Boltinn fékk að fljóta betur í sóknarleiknum. Ég held að það hafi verið það sem var að hjálpa okkur. Það var bara ekki nóg en það var of mikill munur.” 

 

Þetta er annað árið í röð þar sem Valur er deildarmeistari. Í fyrra töpuðu þær úrslitaleiknum gegn Fram en þær hafa fulla trú á að geta klárað þetta í ár.  

 

„Við höfum náttúrulega alltaf trú á að geta orðið Íslandsmeistarar. Sama hvort það sé núna eða í fyrra. Við unnum Fram í bikarúrslitum og höfum alveg sýnt að við getum unnið þær.Þetta snýst bara um hugarfar.”  

 

„Mér lýst mjög vel á það bara. Okkur hefur gengið mjög vel með þær í vetur. Við mættum þeim líka í undanúrslitum í fyrra svo við vitum alveg hvað við þurfum að gera. Þær vita reyndar líka hvað þær þurfa að gera á móti okkur. Við þurfum bara að vinna úr því og við ætlum okkur auðvitað bara áfram,” sagði Díana aðspurð um undanúrslitaeinvígið gegn Haukum sem er framundan.

 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira