Körfubolti

Vor í lofti í Vesturbænum og Miðjan boðar endurkomu sína

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það verður mikil stemning í DHL-höllinni í kvöld.
Það verður mikil stemning í DHL-höllinni í kvöld. vísir/bára
„Miðjan er vorboðinn ljúfi hér í Vesturbænum,“ segir Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR, en hann býst við kjaftfullu húsi í DHL-höllinni í kvöld er fyrsti leikur KR og Þórs Þ. í undanúrslitum Dominos-deildar karla fer fram.

Böðvar segir að stuðningssveit KR-inga, Miðjan, mæti til leiks í kvöld og sé tilbúin í átök gegn Græna drekanum í stúkunni.

„Þeir eru orðnir svo góðu vanir að þeir vakna bara á vorin,“ segir Böðvar léttur. „Það er frábært að fá þá aftur í húsið og ég er að búast við rosalegri stemningu í kvöld. Þetta er besti tími ársins.“

KR-ingar ætla að byrja að grilla klukkan 17.30 í kvöld og þeir bjóða meðlimi Græna drekans sérstaklega velkomna í stuðið fyrir leik. Miðasala opnar klukkan 18.00 en Böðvar hvetur fólk til þess að kaupa miða á netinu svo hægt verði að forðast biðraðir. Hægt er að kaupa miða á netinu hér.

„Það er svakaleg stemning fyrir kvöldinu hjá okkur. Svo mikil að Emmsjé Gauti var búinn að senda mér skilaboð fyrir átta í morgun um hvort það væri ekki örugglega miðasala á netinu. Ég bíð eftir að fá sömu skilaboð frá forsetanum,“ segir formaðurinn kátur og ljóst að mikil eftirvænting er í Vesturbænum fyrir kvöldinu.

Leikur KR og Þórs Þ. hefst klukkan 19.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og í beinni textalýsingu á Vísi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×