Umfjöllun og viðtöl: Akureyri - ÍR 29-35 | Akureyringar fallnir

Jón Ágúst Eyjólfsson skrifar
Ihor Kopyshynskyi og félagar stoppuðu stutt við í Olís-deildinni.
Ihor Kopyshynskyi og félagar stoppuðu stutt við í Olís-deildinni. vísir/bára

Það var allt undir fyrir heimamenn í Akureyri Handboltafélagi þegar ÍR ingar heimsóttu þá í Höllina í lokaumferð Olísdeildar karla þennan veturinn. Ef liðið ætlaði sér að halda áfram að leika í deild þeirra bestu þurftu þeir að vinna og treysta á sigur Eyjamanna í Safamýrinni gegn Frömurum. Það fór svo að ÍR hafði sigur með sex marka mun, 29–35 og heimamenn því fallnir í Grill 66 deildina.

Leikurinn fór afleitlega af stað fyrir heimamenn og voru gestirnir fljótlega komnir með fjögurra marka forystu og þegar sjö mínútur voru eftir af fyrri hálfleik var munurinn orðinn átta mörk. Þá tók Geir Sveinsson sitt annað leikhlé og virtust hans menn ætla að svara kallinu. Þeir minnkuðu munin niður í fimm mörk en ÍR ingar áttu alltaf svör við aðgerðum Akureyringa og nær komust þeir ekki í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik 15–20 ÍR í vil og Akureyringar á leiðinni niður.

Akureyringar hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti og á augabragði var munurinn aðeins tvö mörk.En þá hrökk allt í baklás og ÍR ingar juku forskotið jafnt og þétt. Mestur varð munurinn sjö mörk en eins og áður sagði voru lokatölur 29–35, ÍR í vil. Eins árs veru Akureyri Handboltafélags í deild þeirra bestu því lokið í bili.

Af hverju vann ÍR?
Fyrst og fremst vegna þess að gæðin í ÍR liðinu eru einfaldlega meiri en í Akureyrar liðinu. Veigamikill þáttur í sigrinum er þó slæmur varnarleikur heimamanna og markvarsla í takti við það. Þú vinnur ekki marga leiki með einungis 22% markvörslu, sem nota bene skánaði til muna þegar leið á leikinn.

Hverjir stóðu uppúr?
Markahæstu menn gestanna, þeir Arnar Freyr Guðmundsson og Pétur Árni Hauksson, áttu báðir ansi góðan leik í dag. Skoruðu að vild og fundu sömuleiðis samherja sína í opnum færum. Stephen Nielsen var einnig traustur í markinu með 16 varin skot, sem skilaði sér í 39% markvörslu.

Hvað gekk illa?
Varnarleikur heimamanna var ansi gloppóttur og komust leikmenn ÍR full auðveldlega í gegnum hana hvar sem var á vellinum, úti á miðjum velli eða út í hornunum.

Hvað gerist næst?
Nú tekur við landsleikjahlé en svo hefst alvaran með úrslitakeppninni. Þar mæta ÍR ingar ógnarsterku liði Selfyssinga sem höfnuðu í öðru sæti deildarinnar. Akureyringar eru hins vegar komnir í sumarfrí en svo tekur væntanlega bara undirbúningur fyrir Grill 66 deildina við hjá þeim.

Bjarni: Trúi því að Akureyri fari strax aftur upp
Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, var að vonum ánægður með sína menn eftir góðan sigur á Akureyringum. ,,Mér fannst við spila mjög góðan leik. Þetta var hörkuleikur og Akureyringarnir voru að selja sig mjög dýrt og voru að gefa sig alla í þetta með góðum stuðning og stemmningu. Þannig að ég er virkilega ánægður í raun og veru með frammistöðuna,“ sagði Bjarni.

Bjarni sagði það gott að hafa náð að rúlla vel á mannskapnum og ítrekaði jafnframt ánægju sína með alla sem komu inn af bekknum. „Það voru allir rétt stilltir, líka þeir sem komu inn af bekknum og það gefur góð fyrirheit fyrir okkur.“

Spurður að því hvort að hann væri farinn að kortleggja Selfyssingana fyrir átökin í úrslitakeppninni var svarið stutt og laggott: ,„Nei, bara ekki neitt. En við erum náttúrulega búnir að mæta þeim tvisvar og maður er búinn að horfa á einhverja leiki með þeim.“ Hann bætti því við að nú gæfist nægur tími til að skoða þá, tvær vikur og bætti svo við að „við munum bara leggja allt í sölurnar.“

Það hefur mætt mikið á liðunum í Olísdeild karla síðustu vikuna en leiknar hafa verið þrjár umferðir á einni viku.

„Bara stuð. Mér finnst þetta bara skemmtilegt. Þeir ráða léttilega við þetta (innskot blaðamanns: leikmennirnir) svona inn á milli. Að fá þriggja leikja lotu á átta dögum einstaka sinnum er ekkert mál.“ Hann bætti því við að þetta væri það sem koma skyldi í úrslitakeppninni enda hafi þjálfarateymi ÍR sett þennan leik upp eins og fyrsta leik í úrslitakeppninni. „Þú ert að spila mikilvægustu leiki tímabilsins þreyttur, sár kannski. Þannig að þú verður bara að geta neglt á það þannig að þetta var bara virkilega góður undirbúningsleikur fyrir það.“

Bjarni þekkir vel til í Höllinni en hann lék um árabil með Akureyri Handboltafélag og þjálfaði það einnig um tíma. „Ég átti frábær fjögur ár hér á Akureyri og þykir ótrúlega vænt um þennan stað og þennan klúbb þannig að ég trúi því bara að þeir þétti raðirnar og komi beinustu leið upp aftur,“ sagði Bjarni að lokum.

Geir: Stóð ekki steinn yfir steini í vörninni
Það var þungt yfir þjálfara Akureyringa, Geir Sveinssyni, eftir tapið fyrir ÍR enda hans menn fallnir úr deild þeirra bestu.
„Það stóð ekki til að tapa hér í dag og þar af leiðandi fara niður um deild. Það var bara engan vegin það sem við lögðum upp með og ætluðum okkur hér í dag,“ sagði Geir. Hann var ekki sáttur við það hvernig hans menn komu inn í leikinn og sagði að „því miður þá bara komum við einhvern veginn mjög skakkt inn í leikinn og hérna við létum þá gjörsamlega valta yfir okkur.“
Varnarleikurinn var ekki upp á marga fiska og því var Geir fyllilega sammála. „Það stóð í sjálfu sér ekki steinn yfir steini í vörninni og markvarslan eftir því. Í rauninni þá bara keyrðu þeir yfir okkur og bara mjög slakur fyrri hálfleikur varnarlega.“
Það var vissulega mikið undir fyrir ungt lið Akureyringa og því ekki úr vegi að velta fyrir sér hvort leikmenn liðsins hafi einfaldlega ekki náð að höndla álagið og þegar Geir var spurður út í það hvort spennustig leikmanna hafi einfaldlega ekki verið rétt stillt sagði hann það vissulega möguleika.
„Maður verður bara að gera ráð fyrir því að það sé eitthvað þess háttar, að það sé eitthvað að trufla. Stuttu eftir leik ferðu í alls konar pælingar að reyna að átta þig á því hvað nákvæmlega var og það getur vel verið að manni hafi ekki tekist að stilla spennustigið rétt.“
Geir hélt áfram og sagði þennan leik í raun hafa verið lagðan upp eins og hvern leik frá því að hann kom.
„Úrslitaleikur upp á að ná í stig, þetta er bara búið að ganga út á það. Við vissum að við yrðum að gera betur hlutfallslega en við vorum búnir að gera fram að áramótum, ná í hlutfallslega fleiri stig en búið var að gera þá. Það þýddi að við yrðum að ná í sex eða átta stig að minnsta kosti til að tryggja þetta.“
Það kom mörgum á óvart þegar Akureyringar létu Sverra Jakobsson fara og réðu Geir. Á þeim tímapunkti höfðu Akureyringar sótt fimm stig af átta mögulegum úr fjórum síðustu leikjum, þar á meðal sigra gegn FH og Selfossi. Blaðamanni lék forvitni á að vita hvort að breytingarnar sem fylgdu nýjum þjálfara hafi einfaldlega verið of margar á þessum tímapunkti.
„Sko ég auðvitað get ekki svarað því vegna þess að ég var ekki til staðar hérna fyrir áramót, það er að segja ég veit ekki hvað var nákvæmlega að gerast. Eina sem ég get kannski sagt var að út frá þeim áherslum sem við sjáum þegar við horfum á leikina. Það sem ég gerði var að ég kom með nýja vörn, bætti við og vildi meiri fjölbreytni í vörnina,“ sagði Geir og bætti því við að sóknarlega hafi þeir unnið með það sama og var til staðar „og svo kemur auðvitað alltaf eitthvað nýtt inn en þú verður kannski að spyrja einhvern annan um það hvort að breytingarnar hafi verið of miklar fyrir drengina, þeir geta kannski svarað því einna helst.“
Samningur Geirs var út þetta keppnistímabil og því ekki úr vegi að spyrja hann út í framhaldið. „Menn eru bara alltaf stöðugt að tala saman en þetta er enginn tímapunktur að vera að svara því eitthvað núna hvað þær viðræður innihéldu, hvað kom út úr þeim eða hver staðan er. Það er bara ekki tímabært.“
Geir segist vera sannfærður um að Akureyri Handboltafélag eigi afturkvæmt í deild þeirra bestu strax að loknum næsta vetri. „Hér er verið að vinna mjög gott starf. Það er mikill efniviður í yngri flokkunum,“ sagði Geir og benti á að margir í hans hópi hafi verið að stíga sín fyrstu skref á stóra sviðinu og ítrekaði hann að lokum að hann hefði ,„fulla trú á því (að liðið vinni sér sæti í deild þeirra bestu á ný).“

Arnar Freyr: Það verður tuddalegt
Arnar Freyr Guðmundsson átti stórgóðan leik fyrir ÍR inga í kvöld og var að vonum sáttur með niðurstöðuna.

„Mjög sterkur sigur hjá okkur. Við spilum frábæra vörn framan af og í kjölfarið góða sókn og þá smellur þetta hjá okkur.“

Arnar fann sig gríðarlega vel, sér í lagi í upphafi leiksins. „Já þetta gekk mjög vel. Við vorum að opna þá vel þarna í byrjun leiks og ég fékk nokkur færi og þakkaði bara vel fyrir mig,“ sagðir Arnar glaður.

ÍR-ingar mæta Selfyssingum í 8-liða úrslitum og Arnar virkaði ansi spenntur fyrir þeirri viðureign.

„Það verður tuddalegt. Fara á Selfoss á einn skemmtilegasta útivöll landsins, pakkað hús og við þurfum að nýta hléið vel, þétta raðirnar og ná öllum heilum og mæta og negla á þetta,“ sagði Arnar Freyr að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.