Handbolti

Akureyri eða Fram mun falla

Hjörvar Ólafsson skrifar
Fara Framarar niður í kvöld?
Fara Framarar niður í kvöld? vísir/bára
Lokaumferð Olís-deildar karla í handbolta fer fram í kvöld. Ljóst er hvaða átta lið munu komast í úrslitakeppni deildarinnar, Haukar hafa nú þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn og Grótta er fallin. 

Mesta spennan fyrir leiki kvöldsins er svo hvort Akureyri eða Fram fylgir Gróttu niður í næstefstu deild. Akureyri er fyrir umferðina í fall­sæti með 12 stig en Fram sæti ofar með 13 stig. Norðanmenn þurfa því að hafa betur í leik sínum gegn ÍR og treysta á að ÍBV vinni Fram.

Akureyri er nýliði í deildinni á yfirstandandi leiktíð en Fram væri að falla í fyrsta skipti síðan liðið tryggði sér sæti í efstu deild árið 1996 eftir þriggja ára veru í næstefstu deild.   

Akureyri vann sinn fyrsta leik eftir áramót, þegar liðið strengdi líflínu í baráttu sinni um að forðast fallið úr deildinni, á móti Stjörnunni í þarsíðustu umferð deildarinnar.

Fram mistókst hins vegar að tryggja sér sæti í efstu deild á næstu leiktíð þegar liðið kastaði frá sér góðri stöðu í leik sínum gegn Aftureldingu í síðustu umferð.

Aðrir leikir kvöldsins eru toppslagur Hauka og Vals, Stjörnunnar og Selfoss, KA og FH og Gróttu og Aftureldingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×