Handbolti

Kveðjuleikur Heimis og Sverre: Sáum sjarma í því að taka nokkrar varnir saman

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heimir átti afar gott tímabil í vörn KA.
Heimir átti afar gott tímabil í vörn KA. vísir/bára
Löngum og glæsilegum ferli Heimis Arnar Árnasonar lauk í kvöld þegar KA vann FH, 29-26, í 22. og síðustu umferð Olís-deildar karla. Sverre Jakobsson kom líka aðeins við sögu í sínum fyrsta leik fyrir KA í áraraðir og sínum síðasta leik á ferlinum.

Heimir átti góðan leik í vörn KA og því eðlilegt að spyrja af hverju í ósköpunum hann sé að hætta?

„Eftir 30 daga verð ég fertugur. Mig langar að spila golf langt fram eftir aldri þannig að maður verður að hlusta á líkamann,“ sagði Heimir sem gaf það í skyn að hann gæti áfram spriklað með KA-U í Grill 66 deildinni.

Heimir var að vonum ánægður með síðasta leikinn í efstu deild og hvernig hann fór.

„Ég fékk gæsahúð þegar Sverre kom inn á. Það voru þjálfaramistök að hann skyldi ekki spila meira. En það var allt með okkur. Ég fann það allan tímann að við myndum vinna þetta. Ég er mjög sáttur en hefði viljað skora. En ég átti frábært frákast,“ sagði Heimir léttur.

„Að öllu gamni slepptu var þetta frábært tímabil. Við unnum bæði deildar- og bikarmeistarana. Við erum pínu svekktir að vera ekki að fara í úrslitakeppnina en hrikalega stoltir,“ sagði Heimir að lokum.

Sverre lék í gula og bláa búningnum í fyrsta sinn í áraraðir. Og jafnframt í síðasta sinn.mynd/skjáskot
Sverre, sem er 42 ára, kom aðeins inn á í vörn KA í fyrri hálfleik.

„Þetta þróaðist í þessa átt. Við Heimir sáum sjarma í því að taka nokkrar varnir saman. Við náðum einni,“ sagði Sverre sem kom inn í þjálfarateymi KA eftir áramót.

„Ég hóf ferilinn hérna og það er ágætt að enda hann líka í gulu treyjunni.“

Stemmningin í KA-heimilinu í kvöld var með besta móti og Sverre fékk góðar móttökur þegar hann var kynntur til leiks.

„Þetta var æðislegt. Manni hefur verið gríðarlega vel tekið hérna og maður nýtur þess að vera áfram í handboltanum. Ég er þakklátur fyrir að félagið hafi viljað fá mig.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.