Golf

Kim leiðir með minnsta mun fyrir lokahringinn í Texas

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kim lék á þremur höggum undir pari í dag.
Kim lék á þremur höggum undir pari í dag. vísir/getty
Kóreumaðurinn Si Woo Kim er með eins höggs forystu eftir þrjá hringi á Valero Texas Open mótinu sem er hluti af PGA-mótaröðinni í golfi.





Kim er samtals á 15 höggum undir pari. Hann lék fyrstu tvo hringina á sex höggum undir pari og í dag lék hann á þremur höggum undir pari.

Í gær fór Kim holu í höggi á 16. braut. Hann var hársbreidd frá því að endurtaka leikinn í dag.





Eftir fyrstu tvo hringina var hinn 23 ára Kim með fjögurra högga forystu á næstu menn. Meðal þeirra voru Bandaríkjamennirnir Jordan Spieth og Rickie Fowler. Hvorugur náði sér á strik í dag og léku þeir báðir á einu höggi yfir pari. Spieth lék skelfilega á fyrri níu holunum en bjargaði andlitinu með góðri spilamennsku á seinni níu. Spieth og Fowler eru í 16.-23. sæti, átta höggum á eftir Kim.

Hinn bandaríski Charley Hoffman lék manna best í dag, á átta höggum undir pari og lyfti sér upp um 17 sæti og í það þriðja. Hoffman er samtals á 13 höggum undir pari, tveimur höggum á eftir Kim. Hann á besta hringinn á mótinu til þessa.





Kanadamaðurinn Corey Conners lék einnig vel í dag. Hann fór hringinn á sjö höggum undir pari og er enn í 2. sætinu. Hann er aðeins höggi á eftir Kim.

Jafnir í 4.-6. sæti eru Bandaríkjamaðurinn Scott Brown, Jhonattan Vegas frá Venesúela og Kóreumaðurinn Kyoung-Hoon Lee. Þeir eru á ellefu höggum undir pari.

Hægt verður að fylgjast með lokahringnum á Valero Texas Open á Stöð 2 Golf á morgun. Bein útsending hefst klukkan 17:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×