Golf

Nýliði síðasta árs í forystu fyrir lokahringinn á fyrsta risamótinu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ko þarf að halda vel á spöðunum á morgun til þess að hreppa fyrsta risatitilinn
Ko þarf að halda vel á spöðunum á morgun til þess að hreppa fyrsta risatitilinn vísir/getty
Jin Young Ko tók forystuna af In-Kyung Kim á þriðja hring ANA Inspirational mótsins, fyrsta risamóti ársins í kvennagolfinu.

Hin tuttugu og þriggja ára Ko spilaði á fjórum höggum undir pari á þriðja hringnum í Kaliforníu í nótt og er því samtals á átta undir í mótinu, höggi á undan Kim sem átti erfðan hring í nótt.

Á síðustu þremur LPGA mótum sem Ko hefur tekið þátt í endaði hún önnur, fyrsta og þriðja svo hún er svo sannarlega með gott gengi á bakinu inn í þetta mót. Hún hefur hins vegar aldrei unnið risamót.

„Ég er ekki stressuð og ég er ekki hrædd,“ sagði Ko eftir hringinn í nótt. Hennar besti árangur á risamóti er annað sætið á Opna breska árið 2015.

Ko var valin nýliði ársins á LPGA mótaröðinni á síðasta ári og náði hún mest fimm högga forystu á hringnum í nótt eftir frábæra byrjun, en hún fékk fimm fugla á fyrri níu holunum. Skolli og tvöfaldur skolli undir lokin eyðilögðu hins vegar aðeins fyrir henni og því er forystan aðeins eitt högg fyrir lokahringinn.



Jafnar í þriðja sætinu eru Mi Hyang Lee og Danielle Kang og því eru þrír af fjórum efstu kylfingunum frá Suður-Kóreu. Hin Bandaríska Kang sagði mótið í ár vera eitt það erfiðasta sem hún hafi spilað á þessum velli, en hún hefur verið á meðal þátttakanda síðustu átta ár. Hennar besti árangur er 26. sætið og því stefnir allt í að hún bæti hann.

Lee endaði hringinn í nótt eins og best verður á kosið en hún gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á 17. braut, sem er par 3 hola, og fékk svo fugl á þeirri átjándu.

17. holan er einmitt holan þar sem Ólafía Þórunn Kristinsdóttir fór holu í höggi á þessu sama móti fyrir ári síðan.



Fjórði og síðasti hringurinn fer svo fram í kvöld og verður sýnt beint frá honum á Stöð 2 Sport 4. Útsendingin hefst klukkan 21:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×