Golf

Kylfingur lést á hótelherbergi sínu í miðju golfmóti

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Arie Irawan var 28 ára gamall og hann lætur eftir sig eiginkonu, Marina.
Arie Irawan var 28 ára gamall og hann lætur eftir sig eiginkonu, Marina. vísir/getty
Keppni var hætt á Sanya Championship mótinu á kínversku PGA mótaröðinni eftir að einn kylfinganna í mótinu lést á hótelherbergi sínu.

BBC greinr frá því að Arie Irawan, 28 ára kylfingur frá Malasíu, hafi látist á hótelherbergi sínu á kínversku eyjunni Hainan þar sem Sanya Championship mótið fór fram.

Tilkynning frá PGA sagði að andlát Irawan hafi að því virðist verið af náttúrulegum sökum en rannsókn á málinu er þó ekki lokið.

Irawan hafði verið atvinnukylfingur frá því árið 2013 og hann átti tvo sigra á Asian Development Tour frá því 2015. Hann var úr leik á Sanya Championship eftir að hafa ekki komist í gegnum niðurskurðinn.

Mótshaldarar ákváðu að aflýsa lokahring mótsins að virðingu við Irawan og fjölskyldu hans og því varð Trevor Sluman krýndur sigurvegari, en hann leiddi mótið eftir 54 holur.

„PGA og kínverska golfsambandið syrgja fráfall eins af meðlimum okkar og votta samúð sína til konu Arie, Marina, og foreldra hans,“ sagði í tilkynningu frá PGA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×