Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Stjarnan 84-82 | Flautukarfa frá Ólafi tryggði Grindavíkursigur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson, leikmaður Stjörnunnar.
Hlynur Bæringsson, leikmaður Stjörnunnar. vísir/bára
Grindvíkingar jöfnuðu í kvöld metin í einvíginu gegn Stjörnunni í 8-liða úrslitum Dominos-deildarinnar. Ólafur Ólafsson tryggði sigurinn með flautukörfu eftir að Stjarnan hafði átt magnaða endurkomu í fjórða leikhluta.

Grindvíkingar mættu gríðarlega baráttuglaðir til leiks í kvöld. Eftir smá vesen í upphafi leiks tóku þeir yfirhöndina og náðu forystunni áður en fyrsti leikhluti var á enda.

Þeir héldu síðan áfram í öðrum leikhluta. Á tímabili var eins og Stjörnumenn mættu ekkert vera að því að spila leikinn og Grindvíkingar voru betri í vörn, sókn og baráttu. Í hálfleik var staðan 48-32, sextán stiga forysta heimamanna.

Í þriðja leikhluta hélst Grindavík á forystunni en Stjörnumenn bitu þó aðeins frá sér. Grindvíkingar settu niður stórar körfur þegar á þurfti að halda og Sigtryggur Arnar Björnsson átti þær nokkrar en hann klikkaði ekki á skoti utan af velli í leiknum sem er magnað.

Fyrir fjórða leikhlutann munaði fjórtán stigum en þá hófst endurkoma gestanna. Þeir minnkuðu muninn jafnt og þétt en Sigtryggur Arnar virtist vera að klára leikinn þegar hann kom forystunni í 9 stig með rúma mínútu eftir.

En Stjörnumenn voru á öðru máli. Hlynur Bæringsson setti þriggja stiga körfu og minnkaði svo muninn í fjögur stig af vítalínunni stuttu seinna. Grindvíkingar fóru fremur illa að ráði sínu í sókninni og Brandon Rozzell jafnaði metin þegar 12 sekúndur voru eftir þegar hann setti niður þriggja stiga skot og víti að auki sem fylgdi í kjölfarið.

Þetta var fyrsta þriggja stiga skotið sem Rozzell setti niður í leiknum en hann hafði klikkað ellefu sinnum fram að því fyrir utan línuna.

Grindvíkingar héldu í sókn og settu boltann á Ólaf Ólafsson. Hann bakkaði að körfunni með Colin Pryor á sér, sneri sér síðan við og fór í stökkskot sem skoppaði af hringnum, upp í loft og beint niður í körfuna um leið og flautan gall. Ótrúlegur endir en sanngjarn sigur heimamanna staðreynd.

Af hverju vann Grindavík?

Þeir voru heilt yfir töluvert betra liðið í dag. Þeir börðust af miklum krafti, settu Stjörnumenn í vandræði ítrekað með sterkri vörn og náðu að opna vörn Stjörnunnar á ýmsan hátt. Þá sérstaklega í fyrri hálfleiknum þar sem Jordy Kuiper skoraði hvert stigið á fætur öðru undir körfunni.

Þegar Stjörnumenn gerðu sitt í að koma til baka eftir hlé fengu Grindvíkingar yfirleitt körfurnar sem þeir þurftu. Þeir fóru hins vegar ekkert sérstaklega vel að ráði sínu undir lokin, fóru að verja forskotið í staðinn fyrir að sækja villur og auðveldari skot. Þá gengu Stjörnumenn á lagið og voru nálægt því að stela sigrinum.

Þessir stóðu upp úr:

Sigtryggur Arnar var geggjaður hjá Grindavík í kvöld. Hann var 6/6 í þriggja stiga skotum og 8/8 í heildina – klikkaði ekki á skoti utan af velli. Ólafur Ólafsson fór einnig fyrir sínum mönnum með fádæma baráttu og þá var Jordy Kuiper frábær í fyrri hálfleik.

Það voru margir að leggja í púkkið hjá Grindavík í kvöld og menn með ágætis innkomur af bekknum þrátt fyrir að hafa ekki endilega sett stig á töfluna.

Hjá Stjörnunni var fyrirliðinn Hlynur Bæringsson góður með 20 stig og 12 fráköst og Antti Kanervo skilaði sínu þrátt fyrir að hafa dottið óþarflega mikið niður á köflum.

Hvað gekk illa?

Stjörnumenn virtust ekki tilbúnir í baráttuna sem til þurfti í kvöld. Lengst af voru þeir linir og kraftlausir, bæði í vörn og sókn. Þegar þeir hins vegar ná sér á strik eru þeir illviðráðanlegir.

Brandon Rozzell átti óvenju slakan leik. Hann skoraði 13 stig og hitti aðeins úr fjórum af tuttugu og einu skoti utan af velli.

Því miður fyrir Grindvíkinga finnst mér ólíklegt að hann hitti svona illa í næsta leik.

Hvað gerist næst?

Staðan í einvíginu er 1-1 en þrjá sigra þarf til að komast í undanúrslit. Grindvíkingar tryggðu sér annan heimaleik með sigri í kvöld en liðin mætast í þriðja leik einvígisins í Garðabæ á miðvikudag.

Jóhann: Voru flottir á fimmtudag og enn betri í dag
Jóhann ræðir við sína menn.vísir/daníel
„Við áttum þetta skilið, þó svo að við höfum dottið óþarflega mikið niður í fjórða leikhluta og farið að verja forskotið í staðinn fyrir að sækja, þetta klassíska. Við vorum frábærir í fyrri hálfleik og áttum þetta skilið. Við töluðum þennan bolta síðan niður í restina,“ sagði kampakátur Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur eftir sigurinn í kvöld.

Vörn Grindavíkur kom Stjörnunni í vandræði í kvöld og ekki oft sem Garðbæingar skora bara 32 stig í einum hálfleik.

„Við erum að einbeita okkur að því að hafa gaman að þessu og nálgast þetta á jákvæðan hátt. Það hjálpar okkur og er eitthvað sem við vorum í vandræðum með í vetur. Við vorum flottir á fimmtudag, ennþá betri í dag og vonandi bætum okkur fyrir miðvikudag.“

Jóhann nefndi eftir leikinn á fimmtudag að hans menn hafi séð að þeir ættu í fullu tré við deildarmeistara Stjörnunnar og það var augljóst í kvöld að Grindvíkingar ætla sér annað og meira en bara að vera með.

"Það var mikið talað um að þeir myndu bara setjast niður, fara yfir sín mál og svo valta yfir okkur. Við erum að reyna að verða betri og fyrstu 35 mínúturnar erum við bara mjög góðir. Auðvitað dregur af okkur og Arnar var síðan næstum því búinn að klúðra þessu fyrir okkur í restina en þetta slapp,“ sagði Jóhann Þór glottandi en Sigtryggur Arnar Björnsson braut á Brandon Rozzell í þriggja stiga skoti undir lokin. Skot Rozzell fór niður og vítið sem fylgdi sömuleiðis og leikurinn jafn þegar 12 sekúndur voru eftir.

Annars var Sigtryggur Arnar virkilega góður í leiknum í kvöld og klikkaði ekki á skoti utan af velli.

„Hann var mjög góður í vörn og sókn og fleiri. Þó svo að menn séu ekki endilega að setja stig á töfluna þá eru menn að leggja sig fram. (Kristófer) Breki er að elta þessa atvinnumenn hér í Stjörnuliðinu og standa sig vel, Jóhann Árni kemur inn með flottar mínútur og mér finnst gott jafnvægi í þessu. Ég hlakka bara til miðvikudagsins,“ sagði Jóhann að lokum.

Arnar: Truflar okkur ekkert hvernig þið haldið að einvígið fari
Arnar í leik með Stjörnunni.vísir/bára
Arnar Guðjónsson var ekki sammála mati blaðamanns að Stjörnuliðið hefði verið slakt í 35 mínútur í leiknum í kvöld.

„Nei, við vorum slakir í 15 mínútur. Annars var þetta bara járn í járn eftir það. Við náðum áhlaupi í lokin og gerum þetta að leik en það gekk ekki upp,“ sagði Arnar í viðtali eftir leik.

Stjörnumenn voru strax farnir að elta Grindvíkinga eftir fyrsta leikhluta og í hálfleik munaði 16 stigum. Arnar sagði lítið hafa komið á óvart í leik Grindvíkinga.

„Kannski á fimmtudag en ekki í kvöld,“ og spurði síðan hvort blaðamaður ætti við að heimamenn hefðu komið á óvart í taktík eða hugarfari.

„Taktíst á fimmtudag og aðeins í dag en ekki hvað varðar hitt,“ svaraði hann svo.

Blaðamanni lék því næst forvitni á að vita hvað Stjörnumenn hefðu verið að gera illa á þeim mínútum sem Stjörnumenn voru ekki að spila vel.

„Varnarlega erum við ekki góðir og það er mjög dýrt gegn þessu liði.“

Brandon Rozzell hitti aðeins úr 1 af 12 þriggja stiga skotum sínum í leiknum í kvöld og var óvanalegt að sjá þessa öflugu skyttu eiga svona slæman skotdag.

„Hann er bara mannlegur og klikkar á skotum. Þegar hann spilaði í Danmörku átti hann leik sem var 0/12 þannig að þetta var skömminni skárra en það.“

Arnar sagði það ekki trufla hans menn að flestir spekingar hafi búist við 3-0 sigri Stjörnunnar í einvíginu.

„Hvað þið haldið um það hvernig einvígi fara?“ spurði Arnar.

„Nei, það truflar okkur ekki neitt,“ sagði Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnunnar sem var fremur fámáll eftir tapið í kvöld.

Ólafur: Erum ekki í þessu til að vera hraðahindrun fyrir þá
Ólafur var hetja Grindvíkinga í kvöld.Vísir/Eyþór
„Ég held ég hafi gert þetta síðast þegar var í unglingaflokki. Þetta er geggjuð tilfinning,“ sagði hetja Grindvíkinga, Ólafur Ólafsson, eftir leikinn gegn Stjörnunni í kvöld en hann skoraði sigurkörfuna um leið og flautan gall. Staðan í einvíginu er 1-1.

„Við vorum flottir og héldum áfram að spila hörkuvörn og létum boltann ganga aðeins betur í sókninni. Boltaflæðið datt aðeins niður í þriðja leikhluta en ég var aldrei smeykur. Kaninn þeirra átti frábært skot hér í lokin þannig að við þurftum að taka lokaskotið og vinna og við gerðum það sem betur fer,“ bætti Ólafur við en Brandon Rozzell jafnaði metin þegar hann setti niður þriggja stiga skot og víti að auki þegar 12 sekúndur voru eftir.

Grindvíkingar náðu annars að stoppa Rozzell ágætlega og karfan undir lokin var fyrsta þriggja stiga skotið sem Rozzell setti niður eftir ellefu misheppnaðar tilraunir þar á undan.

„Við spiluðum hörkuvörn á hann og reyndum að láta hann hafa fyrir hlutunum, hann á alltaf eftir að setja sín skot og það er í raun bara hægt að hægja aðeins á honum og gera þetta saman.“

„Ef við gerum hlutina saman erum við mjög góðir í vörn og sókn. Í kvöld unnum við eitt besta liðið á landinu og förum bara með hökuna upp og kassann út á miðvikudag í Garðabæinn.“

Umræðan fyrir þetta einvígi hjá körfuboltaáhugamönnum snerist að mestu um að Stjarnan færi ósigrað áfram í undanúrslitin. Grindvíkingar sýndu hins vegar í kvöld, sem og í leiknum á fimmtudag, að þeir eru með aðrar hugmyndir.

„Við erum ekkert í þessu til að vera hraðahindrun fyrir þá. Við erum í þessu til að fara áfram í næstu umferð og þurfum að vinna besta liðið á landinu til að gera það. Þá þurfum við bara að gera það og mætum fullir stjálfstrausts í næsta leik.“

Hlynur: Fannst við verða undir í öllum stöðubaráttum
Hlynur skýtur á körfuna.vísir/vilhelm
Hlynur Bæringsson, fyrirliði Stjörnunnar, var vitaskuld svekktur eftir tapið í Grindavík.

„Við vorum að tapa fullt af baráttum út um allan völl, lausir boltar og einn og einn. Fullt af þannig hlutum þar sem þeir tóku okkur. Við vorum linir og spiluðum eins og leikirnir verða stundum í deildarkeppninni þar sem tempóið verður hægara. Þeir spiluðu pressulausir, allt að vinna og ef þeir settu þrist þá varð allt brjálað. Þeir gengu á lagið og settu okkur í smá holu,“ sagði Hlynur þegar blaðamaður hitti hann eftir leik.

Grindavíkurliðið setti Stjörnumenn útaf laginu í upphafi og það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta sem gestirnir vöknuðu almennilega.

„Þeir hafa verið að skjóta mikið úr stóru stöðunum, Kuiper og Ólafur, og við stoppðum það reyndar í seinni hálfleik. Þeir eru samt eins og flest önnur lið, líkt og okkar, ekki að fara langt nema setja einhver þriggja stiga skot í einvíginu. Þeir kannski sérstaklega eru háðir því.“

Einvígið er jafnt og liðin mætast í Garðabæ á ný á miðvikudag. Hlynur sagði ýmislegt þurfa að skoða fyrir þann leik.

„Ég veit ekki alveg hvað við þurfum að ræða um. Einhvern veginn þurfum við að komast í það hugarfar að byrja af meiri ákafa. Mér fannst þetta kraftlaust og í öllum stöðubaráttum fannst mér við vera undir. Auðvitað voru einhver taktíst atriði sem við réðum illa við en fyrst og fremst fannst mér við verða undir í baráttunni.“

„Síðan getur stundum verið að maður sé að mikla hlutina fyrir sér. Ég held að við höfum verið að hitta mjög illa í fyrri hálfleik. Við vorum alveg að opna þá og þeir ekkert að spila neitt sérstaka vörn þannig séð. Við fengum ágætis færi og á góðum degi, eins og þeir voru að eiga, hefði þetta kannski farið öðruvísi.“

„Þannig er þetta bara stundum. Þeir voru að hitta og fengu alla með sér. Þeir voru sprækir og kraftmiklir lengst af en líkt og í síðasta leik í blálokin þá dregur af þeim. Þessir 5-6 sem eru að spila eru góðir leikmenn þó þeir verði svolítið þreyttir í lokin,“ sagði Hlynur að lokum.


Tengdar fréttir

Sjáðu sigurkörfu Ólafs í Grindavík

Það var ótrúleg dramatík í Röstinni í Grindavík í kvöld þegar Grindvíkingar jöfnuðu einvígi sitt við Stjörnuna í 8-liða úrslitum karla í körfubolta.

Ólafur: Erum ekki í þessu til að vera hraðahindrun fyrir þá

„Ég held ég hafi gert þetta síðast þegar var í unglingaflokki. Þetta er geggjuð tilfinning,“ sagði hetja Grindvíkinga, Ólafur Ólafsson, eftir leikinn gegn Stjörnunni í kvöld en hann skoraði sigurkörfuna um leið og flautan gall. Staðan í einvíginu er 1-1.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira