Körfubolti

Bekkur Grindavíkurliðsins hefur aðeins tekið samtals sex skot í fyrstu tveimur leikjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Árni Ólafsson hefur skorað helming stiganna sem hafa komið frá bekk Grindvíkinga í einvíginu, tvö af fjórum.
Jóhann Árni Ólafsson hefur skorað helming stiganna sem hafa komið frá bekk Grindvíkinga í einvíginu, tvö af fjórum. Vísir/Vilhelm
Deildarmeistarar Stjörnunnar taka á móti Grindavík í kvöld í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum úrslitakeppni Domino´s deildar karla í körfubolta.

Grindvíkingar komu mörkum á óvart með að jafna metin með 84-82 sigri í Grindavík í síðasta leik en Ólafur Ólafsson skoraði sigurkörfuna um leið og leiktíminn rann út.

Leikur þrjú verður í beinni á Stöð 2 Sport í kvöld og hefst útsendingin klukkan 19.00.

Stjörnumenn hafa unnið báða leikina á móti Grindavík í Ásgarði, þann fyrri í deildinni með 18 stigum í byrjun mars (91-73) og þann seinni í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum með níu stigum, 89-80.

Grindvíkingar hafa unnið fyrstu þrjá leikhlutana í einvígi liðanna í átta liða úrslitunum með 11 stigum en Stjörnumenn hafa aftur á móti verið með öll völd í fjórða leikhlutanum sem Garðabæjarliðið hefur unnið með 18 stigum.

Þar kemur inn gríðarlegur munur á framlaginu frá bekkjum liðanna. Varamenn Grindvíkinga hafa aðeins skorað samtals fjögur stig og tekið samtals sex skot í fyrstu tveimur leikjunum. Sömu tölur hjá Stjörnumönnum eru 30 stig og 22 skot.

Í fjórum leikjum liðanna í vetur hefur bekkur Stjörnunnar skilað alls 42 stigum meira en bekkur Grindavíkur (67-25). Það munar síðan aðeins 32 stigum á heildarskori liðanna í þessum fjórum leikjum.

Hér fyrir neðan má sjá samanburð á bekkjum liðanna í leikjum eitt og tvö í einvígi þeirra í átta liða úrslitum.

Framlag frá bekkjum liðanna í einvíginu til þessa

Bekkur Grindavíkur samtals í leik 1 og 2

Mínútur: 70:38

Stig: 4

Fráköst: 10

Stoðsendingar: 1

Framlag: 12  

Skot: 6

Bekkur Stjörnunnar samtals í leik 1 og 2

Mínútur: 93:56

Stig: 30

Fráköst: 15

Stoðsendingar: 3

Framlag: 37

Skot: 22




Fleiri fréttir

Sjá meira


×