Körfubolti

Ingi Þór: Hjarta sigurvegarans slær enn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ingi Þór er kominn með sitt lið í undanúrslit Dominos-deildarinnar.
Ingi Þór er kominn með sitt lið í undanúrslit Dominos-deildarinnar. Vísir/Eyþór
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR, var afskaplega ánægður með sína menn eftir sigurinn á Keflavík í kvöld. KR tryggði sér sæti í undanúrslitum Dominos-deildarinnar með sigrinum, lokatölur 85-64. 

„Virkilega flottar færslur og góð vörn í seinni hálfleik, við náðum að þvinga þá í mikið af erfiðum skotum þó að þeir hafi reyndar náð sóknarfráköstum full oft að því að mér fannst. Mér fannst við vel stilltir og komum gríðarlega grimmir í seinni hálfleikinn,“ sagði Ingi Þór í viðtali við Vísi eftir leik.

„Við náðum að búa til þessa forystu og það er erfitt fyrir þá að elta hér á heimavelli, verandi 2-0 undir í einvíginu. Við náðum sálfræðilegu taki þar," bætti Ingi við en KR kom muninum yfir 10 stig fljótlega í þriðja leikhluta eftir jafnan fyrri hálfleik.

KR-liðið lenti í 5.sæti í deildarkeppninni og kemur síðan hingað til Keflavíkur og vinnur tvo útisigra. Þeir virðast vera að toppa á hárréttum tíma.

„Við erum með mikla reynslu og marga leikmenn sem geta spilað. Ég tek hatt minn ofan fyrir þeim sem eru ekki að svitna mest hér á gólfinu. Menn eru í þessu saman og mjög einbeittir að gera allt sem þarf til að vinna. Við treystum hvor öðrum og þannig er gott lið,“ sagði Ingi Þór.

KR fær nú smá hvíld fyrir undanúrslitin, væntanlega kærkomið fyrir þá enda ekki beint með yngsta hópinn í deildinni.

„Hvíldin er mikilvæg og við eigum eftir að fá menn til að hjálpa okkur að ná góðri endurheimt. Við þurfum að vera skynsamir áfram. Við erum hungraðir og það sést,“ og ítrekaði að hungrið væri svo sannarlega til staðar þrátt fyrir að KR hafi unnið Íslandsmeistaratitilinn fimm ár í röð.

„Það skiptir engu máli. Þú tekur ekki hjarta sigurvegarans út. Það er á sínum stað og það slær enn,“ sagði Ingi Þór að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×