Handbolti

Vignir kemur heim í Hauka í sumar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Vignir Svavarsson á yfir 200 landsleiki að baki.
Vignir Svavarsson á yfir 200 landsleiki að baki. vísir/ernir

Vignir Svavarsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta, spilar í Olís-deild karla á næstu leiktíð en hann hefur ákveðið að koma heim og spila með uppeldisfélagi sínum Haukum.

Haukar greina frá þessu á Facebook-síðu sinni en Vignir lék síðast með Haukum veturinn 2004-2005 áður en hann fór út í atvinnumennsku til Skjern í Danmörku.

Hann fór þaðan til Lemgo þar sem hann varð EHF-bikarmeistari en spilaði svo með Hannover og Minden áður en hann hélt aftur til Danmerkur. Hann varð danskur bikarmeistari með Midtjylland á sinni fyrstu leiktíð aftur í Danmörku en spilar nú með Team Tvis Holstebro.

Vignir, sem er öflugur línu- og varnarmaður, var fastamaður um árabil í íslenska landsliðinu og spilaði 234 landsleiki en hann var hluti af bronsliðinu á EM í Austurríki árið 2010.

„Það kom aldrei annað til greina en að koma heim til Hauka og klára ferilinn hjá uppeldisfélaginu mínu. Ég vil miðla minni reynslu til yngri leikmanna og leggja mitt af mörkum til að vinna titla með Haukum. Ég hlakka mikið til að klæðast Haukatreyjunni á ný og hitta allt fólkið á Ásvöllum,“ segir Vignir Svavarsson.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.