Sport

Halldór Logi keppir á stóru glímumóti í London í kvöld

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Halldór Logi Valsson keppir á Polaris glímukvöldinu í London í kvöld. Um er að ræða einn stærsta glímuviðburð Evrópu en Halldór fékk boð um að keppa á mótinu.

Polaris glímukvöldið fer fram í London í kvöld í O2 höllinni rétt eins og bardagi Gunnars á morgun. Glímukvöldið fer fram í minni sal en byrjar rétt eftir að sjónvarpsvigtunin klárast í O2 höllinni.

Á Polaris er 14 spennandi glímum raðað saman og hafa mörg stór nöfn í glímuheiminum á borð við Jake Shields, Garry Tonon, Ben Henderson og Dillon Danis keppt á mótinu.

Halldór Logi er svart belti í brasilísku jiu-jitsu undir Gunnari Nelson og mætir Frederic Vosgrone í 15 mínútna glímu. Halldór er í fimmtu glímu kvöldsins en 14 glímur eru á dagskrá.  Glímukvöldið er sýnt á Fight Pass rás UFC en fyrstu átta glímunum (þar á meðal glíman hans Halldórs) verður streymt ókeypis á Fight Pass. Halldór er tilbúinn fyrir erfiða glímu í kvöld.

Glímukvöldið hefst kl. 19:00 á Fight Pass en Halldór mun keppa um það bil kl. 19:30-20:00 á íslenskum tíma í kvöld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.