Handbolti

Guðlaugur: Hef áhyggjur af því að við séum ekki að vinna

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guðlaugur er ekki sáttur með sitt lið
Guðlaugur er ekki sáttur með sitt lið vísir/bára

Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfara Vals í Olísdeild karla, var ekki sáttur með lið sitt eftir þriggja marka tap gegn ÍBV á heimavelli í kvöld.

„Fyrst og fremst vantar að liðið okkar byrji leikinn. Að það komi inn í leikinn eins og við viljum að þeir byrji leikinn,“ sagði Guðlaugur.

„Við erum ofboðslega lélegir varnarlega framan af, þeir skora bara auðveldlega. Við fáum á okkur 17 mörk í fyrri hálfleik sem er bara skandall fyrir okkur. Það fyrst og fremst vantar karakterinn í okkur.“

Valur hefur ekki unnið deildarleik síðan 11. febrúar. Bikarinn hefur reyndar tekið mikið pláss síðustu vikur og þar komu sigrar, þetta var aðeins þriðji leikurinn síðan sigurinn kom gegn ÍR þann 11. febrúar. Hefur Guðlaugur áhyggjur af því að Valur sé ekki að sigla sigrunum heim?

„Auðvitað hef ég áhyggjur af því að við séum ekki að vinna. Ég hef áhyggjur af spilamennskunni, ég hef áhyggjur af því hvernig menn mæta til leiks og ég hef áhyggjur af síðustu tveimur vikum hjá okkur.“

„Það er fullt af áhyggjum hjá okkur akkúrat núna og það er eitthvað sem við þurfum að leysa. Það reynir á okkur Snorra (Stein Guðjónsson, hinn þjálfara Vals), það reynir á liðið og alla í kringum liðið.“

Valur er í þriðja sæti, fjórum stigum á eftir toppliði Hauka og þremur stigum á eftir Selfyssingum þegar fjórar umferðir eru eftir. Er deildarmeistaratitillinn horfinn þeim úr greipum?

„Nú horfi ég bara á næstu æfingu, við þurfum að skila ákveðinni vinnu þar. Við þurfum að horfa inn á við og þessar fjórar æfingar fram að næsta leik eru gríðarlega mikilvægar.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.