Umfjöllun og viðtöl: FH - ÍR 25-24 | FH er komið í úrslitaleikinn eftir spennutrylli í Höllinni

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
vísir/bára
FH er komið í úrslitaleik Coca-cola bikarsins eftir að liðið lagði ÍR að velli með einu marki, 25-24. Hörkuspennandi viðureign þar sem FH var skrefinu á undan og leiddi liðið með tveimur mörkum í hálfleik, 13-11. 

Það tók FH-inga nokkrar mínútur að komast í gang en ÍR hafði yfirhöndina fyrstu mínúturnar. FH náði svo forystu fyrst eftir tæpan stundarfjórðung, 5-4. Fyrri hálfleikurinn var jafn en uppstilltur leikur FH gekk töluvert betur en leikur breiðhyltinga sem var óagaður og sveiflukenndur. Stephen Nilsen, markvörður ÍR, hélt þeim inní leiknum eftir að liðið tapaði boltanum hvað eftir annað í sókninni. En staðan að fyrri hálfleik loknum 13-11, FH í vil. 

Síðari hálfleikurinn hélt áfram að vera jafn og skemmtilegur en FH alltaf þetta skrefinu á undan og náði að stjórna tempóinu í leiknum. FH leiddi með tveimur mörkum, 19-17, þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Seiglan í ÍR liðinu er svo mikil, þeir þurftu að hafa töluvert meira fyrir sínum mörkum en þeir náðu alltaf að koma til baka og hleyptu FH aldrei langt frá sér.

Loka mínúturnar urðu spennandi, Pétur Árni Hauksson, leikmaður ÍR, skoraði í stöðunni 24-22, og minnkaði þar muninn í eitt mark þegar tvær mínútur voru eftir. Hann skoraði svo aftur fyrir ÍR mínútu síðar og staðan 25-24 þegar 30 sekúndur eru eftir. FH náði ekki að skora úr loka sókninni og tíminn var of naumur fyrir ÍR-inga til þess að skora jöfnunarmarkið og niðurstaðan því eins marks sigur FH, 25-24. 

Af hverju vann FH?

FH var ívið betri aðilinn í kvöld, þeir voru agaðir og nýttu færin sín betur. Hafnfirðingarnir stjórnuðu hraðanum á leiknum en ÍR hleypti þeim aldrei langt frá sér þrátt fyrir það, seiglan í ÍR liðinu er mögnuð og þeir gáfust aldrei upp. Þrátt fyrir að FH hafi ekki verið að spila sinn besta leik í kvöld þá gerðu þeir það sem þurfti til að vinna og sýndu gæðin sem þeirra leikmenn búa yfir.

Hverjir stóðu upp úr?

Leikmenn FH voru heilt yfir að skila góðum leik, Ásbjörn Friðriksson er leiðtoginn í þessu liði og aldrei verður efast um mikilvægi hans. Hann skilaði sínu verki í kvöld en einnig var Arnar Freyr Ársælsson mjög góður. 



Stephen Nilsen var maður ÍR liðsins, hann varði 16 skot og hélt ÍR inní leiknum á köflum þar sem sóknin gekk illa. 

Hvað gekk illa? 

Sóknarleikurinn hjá ÍR varð þeim eiginlega að falli, þeir voru með ótal tapaða bolta og fengu ódýr mörk í kjölfarið. 



Hvað er framundan?
 

Framundan er úrslitaleikurinn sjálfur þar sem FH mætir Val. Leikurinn hefst klukkan 16:00 að sjálfsögðu í Laugardalshöll

 

Bjarni Fritz: Tekur ekki svona sénsa á móti liði eins og FH



„Í fyrri hálfleik vorum við að spila flottan bolta, við erum að spila geggjaða vörn og þeir eru í miklum vandræðum. Sóknarlega var ágætis tempó en hefði viljað aðeins hraðari leik en ég sá alveg að þeir voru svolítið stressaðir“ segir Bjarni um leikmenn ÍR, en spennustigið var hátt hjá báðum liðum enda mikið undir



„Við héldum vel, gáfumst aldrei upp og vorum að spila á mörgu leyti ágætis leik, en því fór sem fór. Það sem var að drepa okkur var að við vorum með glórulausa tapaða bolta, fáranlegar ákvarðanatökur“ 



Bjarni kemur þar inná þá endalausu töpuðu bolta sem ÍR átti í kvöld og segir hann enn fremur að það sé ekki boðlegt gegn jafn öguðu liði og FH

„Þegar þú spilar á móti liði eins og FH sem er ótrúlega agaðir og ótrúlega þolimóðir með einstaklega reynslumikla leikmenn þá færðu ekkert endalaust af tækifærum til að refsa þeim. Þeir hanga bara vel á boltanum og losa hann vel frá sér. Ef þú ætlar að taka svona sénsa á móti svona liði þá bara taparu“ 

ÍR fékk nokkrar sekúndur til að jafna leikinn eftir að Stephen Nilsen varði skot Einars Rafns en tíminn var naumur. Pétur Árni keyrði þá á vörn FH og fékk dæmdan á sig ruðning og tíminn rann út. Bjarni segir að hann hefði viljað sjá skot en að hann skilji Pétur vel að keyra bara á þetta og reyna að skora. 

„Þetta voru bara nokkrar sekúndur og þeir þurftu auðvitað bara að vaða á þetta, ég hefði viljað sjá skot en þetta fer bara í reynslubankann hjá strákunum„

 

Halldór Jóhann: Við erum með menn á annarri löppinni líka

„ÍR liðið er bara mjög gott og þeir eru komnir með alla sína menn til baka. Það er reynsla í þessu liði hjá þeim, Stulli, Stephen, Þrándur og Bjöggi, þetta eru reyndir menn og þeir hafa spilað mjög vel uppá síðkastið,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, eftir sigurinn gegn ÍR í undanúrslitum bikarsins í kvöld.

„Við vissum það fyrir leik að við þyrftum að eiga mjög góðan leik til þess að vinna þá. Við áttum kannski ekki mjög góðan leik samt en það dugði til að vinna í dag. 

FH náði að stjórna hraða leiksins og refsuðu ÍR ítrekað fyrir þeirra tæknifeila. Halldór segir að það hafi líka verið planið enda vissu þeir sem var að leikur ÍR er oft sveiflukenndur og því mikilvægt að halda boltanum 

„Það var líka uppleggið hjá okkur, við höfum séð marga ÍR leiki og þeir eru að tapa töluvert af boltum, við vitum það bara. Það eru töluverðar sveiflur á leiknum hjá þeim.“

„Það var bara algjört skilyrði hjá okkur að við þyrftum að halda boltanum innan okkar raða og kasta honum ekki frá okkur,“ segir Halldór en leikskipulag hans gekk vel í kvöld eins og oft áður.

„Við vorum ragir sóknarlega sérstaklega í byrjun og framan af en þegar við náðum góðri stjórn á leiknum fannst mér þetta rúlla ágætlega hjá okkur. Fengum kannski fullt af óttarleg aula mörkum á okkur en þetta er bara þannig þegar maður er spila í undanúrslitum í bikar að spennustigið er hátt.“

FH mætir Val í úrslitaleiknum á morgun. Þessi lið þekkjast vel og býst Halldór við hörku viðureign þar sem bæði lið geta unnið. 

Halldór vill ekki meina að Valsliðið sé eitthvað laskaðara en þeir þrátt fyrir að FH-ingar séu búnir að endurheimta flest alla sína leikmenn.

„Eins og allir þessir úrslita leikir þá leggst þetta bara vel í mig, menn þurfa bara að undirbúa sig vel. Það er ekki langur tími til að undirbúa sig en liðin þekkjast vel frá síðustu árum.“

Það er alltaf eitthvað extra sem þú þarft í úrslitaleikjum og við þurfum klárlega eitthvað extra á morgun. Við þurfum að eiga einn af okkar bestu leikjum í vetur til að vinna Val á morgun.“

„Hversu mikið laskaðari en við eru þeir? Ég held að Aggi verði með á morgun og Robbi var með áðan. Við erum að spila með menn á annarri löppinni líka, það er engin að pæla í því þegar komið er inní úrslitaleikinn, það vilja allir spila þennan leik,“ sagði Halldór Jóhann að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira