Handbolti

„Á ekki að vera hægt að koma inn og geta eitthvað í þessu ásigkomulagi“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Kaplakrika skrifar
Sebastian var mættur í búningi ÍR
Sebastian var mættur í búningi ÍR s2 sport
Áhorfendur í Kaplakrika fengu sitt fyrir aðgangseyririnn í leik FH og ÍR í Olísdeild karla í kvöld því þeir fengu að sjá Sebastian Alexandersson reima á sig skóna og standa á milli stanganna.

Sebastian, eða Basti eins og hann er betur þekktur, er í dag helst þekktur fyrir sérfræðistörf sín í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport en hann var ágætis markmaður hérna einu sinni.

ÍR-ingar voru í vandræðum með að fá menn til að standa í markinu, Bjarni Fritzson hringdi í Basta og hann sló til. En hvernig var að mæta aftur á völlinn?

„Það var bara gaman fyrst og fremst,“ sagði Sebastian eftir leikinn. „Ég bjóst nú svosem ekki við neinu, bara verja eins og einn bolta það hefði verið gaman.“

Það tókst hjá honum að fá á sig skráðan bolta, Bjarni Ófeigur Valdimarsson skaut þó meira í hann úr erfiðri stöðu og FH-ingar náðu frákastinu og skoruðu samt.

Áhorfendur kannast betur við Basta (t.v.) í hlutverki sérfræðingss2 sport
„Ég lýg því ekkert að skotin sem ég var að fá á mig í dag, ég á ekkert að verja þau í því ásigkomulagi sem ég er.“

„Ég var að vonast til að fá kannski eitthvað auðveldara til að vinna með en það var ekki.“

Basti talar mikið um það í Seinni bylgjunni að markmenn verði nú helst að ná 30 prósenta vörslu til að skila almennilegu dagsverki. Hann var ansi langt frá því með eitt skot varið af 7.

„Það væri náttúrulega bara fáránlegt. Allt of gamall, allt of feitur, allt of þungur, með enga sjón, enga mjöðm, engan líkama. Það hefði verið hrikalega slæmt ef ég hefði náð því.“

„Maðurinn bað mig um aðstoð, Stephen er bara á annari löppinni. Það hefði verið gaman að verja einn, tvo bolta. Eigum við ekki að kalla þetta bara einhverja vettvangsrannsókn fyrir Seinni bylgjuna.“

Þegar kallið kom frá Bjarna, þurfti ekkert að tala hann til í að segja já? „Nei, ég var rosalega fljótur að segja já.“

„Svo þegar ég fór að hugsa málið þá fannst mér þetta alltaf verri og verri hugmynd. En svo þegar maður kemur þá er þetta bara rosa gaman.“

„Það á náttúrulega ekkert að vera hægt að koma inn í deildina og geta eitthvað í þessu ásigkomulagi, en það hefði bara verið svo gaman.“

Er þetta upphafið að einhverju meiru?

„Nei, nei, nei,“ var Basti fljótur að svara hlæjandi.

„Alls ekki. Þetta er bara „one off.“ Ef allir meiðast þá er ég skráður í félagið, en ég held ég þyrfti þá að taka eina æfingu fyrst,“ sagði Sebastian Alexandersson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×