Handbolti

Nýlentur á Íslandi og kominn í markið hjá Valsmönnum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Einar Ólafur í treyju Selfoss.
Einar Ólafur í treyju Selfoss. mynd/selfoss
Valsmenn hafa bætt við sig markverði en Einar Ólafur Vilmundarson fékk félagaskipti í Val í dag.

Valsmenn eru í vandræðum þar sem Einar Baldvin Baldvinsson er meiddur og margir mikilvægir leikir fram undan hjá Hlíðarendapiltum. Það vantar því mann með Daníel Frey Andréssyni.

Einar Ólafur kemur frá Selfossi en hann var aftur á móti hættur í handbolta. Hann hefur nefnilega verið í námi erlendis síðustu tvö ár.

Hann hefur einnig leikið með Haukum og Stjörnunni. Markvörðurinn kemur því með ágætis reynslu inn í hópinn en standið á honum er líklega ekki eins og best verður á kosið.

„Hann kom bara til landsins á miðvikudag og er búinn að ná tveimur æfingum með okkur. Hann er í fínu líkamlegu formi en auðvitað í engu leikformi,“ segir Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfara Valsliðsins.

Meiðsli Einars Baldvins gerðu það að verkum að Valsmenn ætluðu að vera með gömlu kempuna Hlyn Morthens til taks. Hlynur spilaði leik  með ungmennaliði Vals dögunum og fór ekki vel úr því. Hann tognaði nánast alls staðar og spilar því ekki á næstunni.

„Við vorum heppnir að Einar Ólafur skildi lenda í fanginu á okkur og vonandi verður hann fljótur að komast í stand,“ bætti Guðlaugur við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×