Handbolti

Gulli: Öll lið finna fyrir því þegar þau missa góða menn í burtu

Svava Kristín Grétarsdóttir skrifar
Guðlaugur baðar út höndum í kvöld.
Guðlaugur baðar út höndum í kvöld. vísir/bára
„Ég er bara ógeðslega fúll að tapa leiknum,“ sagði Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Vals, í samtali við Vísi eftir tap Vals með minnsta mun gegn Selfyssingum í Olís-deild karla í kvöld.

Nökkvi Dan Elliðason skoraði sigurmarkið um tuttugu sekúndum fyrir leikslok en Valsmenn klúðruðu dauðafæri færi skömmu fyrir leikslok þar sem þeir hefðu getað jafnað metin.

„Við fengum gott færi á því að taka allavega einn punkt út úr honum en við töpum bara fyrir góðu Selfoss liði.“

Valur átti góða spretti í leiknum og heilt yfir sýndu þeir góðan leik en það vantaði þó alltaf aðeins uppá að ná almennilegri forystu og segir Gulli það skrifast á leikmenn og klaufaskap að hafa ekki spilað betur úr þeirri forystu sem þeir komu sér í.

„Okkur vantaði móment að koma þessu í þrjú mörk. Við fórum svo illa með færi þegar við erum tveimur fleiri hérna undir lokin.“

„Ákvarðanataka var ekki nógu góð og þetta skrifast bara aðeins á okkur með klaufaskap og að hafa ekki komið þessu í þrjú mörk til að klára leikinn. En við vorum að spila á móti frábæru liði Selfoss sem keyrði bara á okkur og vann í dag.“

Gulli og Snorri Steinn tóku leikhlé þegar 20 sekúndur voru eftir af leiknum og stilltu upp fyrir loka sóknina. Valsmenn komu sér í gott færi til að jafna leikinn en það tókst ekki og fóru heimamenn svekktir af velli

„Við fengum dauðafæri á því að ná inn punkti og hefði viljað það úr því sem komið var en heilt yfir eru fullt af góðum punktum í leiknum, en það er svekkjandi að tapa.“

Valsmenn voru án lykilmanna í dag líkt og í síðasta leik. Gulli segir það auðvitað muna um það en segist ennfremur vera stoltur af þeim leikmönnum sem spiluðu leikinn.

Það er mikið lagt á herðar þeirra Magnúsar Óla Magnússonar og Antons Rúnarssonar í fjarveru Róberts Arons og Agnars Smára en Gulli segist vera ánægður með þá leikmenn sem komu inn og hrósar innkomu Ásgeirs Snærs í hægri skyttuna.

„Auðvitað finna öll lið fyrir því þegar þau missa góða menn í burtu en ég var ánægður með þá leikmenn sem spiluðu og ánægður með þá sem komu inn. Ásgeir (Snær Vignisson) stóð sig vel í hægri skyttunni í fjarveru Agga (Agnars Smára Jónssonar) svo ég er bara ánægður holninguna á liðinu,“ sagði Gulli að lokum


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×