Golf

Komin með keppnisrétt á mótaröð hinum megin á hnettinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. Getty/Warren Little

Valdís Þóra Jónsdóttir úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi náði markmiði sínu á úrtökumóti fyrir áströlsku atvinnumótaröðina.

Valdís Þóra endaði í sextánda til átjánda sæti á mótinu en hún lék á þremur höggum yfir pari. Alls tóku 81 atvinnukylfingar þátt frá 30 þjóðum og allir voru á eftir tuttugu efstu sætunum.

Valdís Þóra náði með árangri sínum að tryggja sér keppnisrétt á ALPG eða áströlsku mótaröðinni í kvennaflokki.

„Þá er fyrsta mótinu hérna í Ástralíu lokið. Ég endaði á þremur höggum yfir pari og jöfn í sextánda sæti. Það var mikill vindur í dag og í gær en mér tókst að höndla það nokkuð vel að mínu mati og ég er ánægð með spilamennskuna í heild sinni í þessu móti. Það sem ég vann í með Kalla og Hlyn á milli Abu Dhabi og núna er virkilega að skila sér og ánægjulegt að sjá muninn frá því í Abu Dhabi,“ skrifaði Valdís Þóra á fésbókarsíðu sína.

„Markmiðið fyrir þetta mót var að enda í topp 20 og næla mér í þátttökurétt á áströlsku mótaröðinni. Ég er nú þegar komin inn á fjögur mót á þeirri mótaröð í gegnum Evróputúrinn en með því að næla mér í þátttökurétt á þessari mótaröð á ég fleiri möguleika á að komast inn í Opna ástralska mótið á þessu ári og svo inn í Vic og Opna Ástralska á næsta ári. Ég er komin yfir á næsta áfangastað og fæ núna viku til þess að æfa mig fyrir Vic Open sem er hluti af LPGA mótaröðinni,“ skrifaði Valdís Þóra.

Átta efstu á þessu móti tryggðu sér keppnisrétt á ISPS Handa mótinu sem er hluti af LPGA mótaröðinni. Valdís Þóra er með keppnisrétt á því móti sem fram fer 7.til 10. febrúar.

Fimmtán efstu tryggðu sér keppnisrétt á Australian Ladies Classic Bonville, ActewAGL Canberra Classic og Womens NSW Open. Valdís Þóra er með keppnisrétt á þeim mótum sem fram fara í lok febrúar á þessu ári.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.