Umfjöllun og viðtöl: Þór Þ. - Stjarnan 79-96 | Stjörnuvélin heldur áfram að malla

Axel Örn Sæmundsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson, leikstjórnandi Stjörnunnar.
Ægir Þór Steinarsson, leikstjórnandi Stjörnunnar. vísir/bára
Hér í kvöld mættust lið Þórs Þ. og Stjörnunnar í 16.umferð Dominos deildar karla. Bæði lið komu á góðu skriði inn í þennan leik. Þórsarar með tvo sterka sigra í röð á meðan að Stjörnumenn voru búnir að vinna síðustu 7 leiki í deildinni.

Fyrsti leikhluti fór hratt og skemmtilega af stað, Stjörnumenn komu vel gíraðir inn í leikinn og voru að setja skotin sín niður á meðan að illa gekk hjá Þórsurum.

Þórsarar komu þó öflugir til baka og náðu þeim fljótlega. Það var mikið jafnræði á milli liðanna og staðan í lok leikhlutans 22-25 Stjörnunni í vil.

Leikurinn spilaðist svipað í öðrum leikhluta en hann virtist þó vera Stjörnumegin en Þórsarar voru aldrei því að gefast upp og settu jafn óðum niður körfur til að halda þessu jöfnu.

Nick Tomsick var með 17 stig í fyrri hálfleik Þórsmegin en hjá gestunum voru það Ægir, Antti og Brandon allir með 11 stig sem voru atkvæðamestir. Staðan í hálfleik 45-51 Stjörnunni í vil.

Í þriðja leikhluta fóru Stjörnumenn að spila betri vörn og neyddu þeir heimamenn í erfið skot og náðu að ýta þeim út úr sínum aðgerðum. Munurinn var ekki ennþá orðinn of mikill á milli liðanna en í fjórða leikhluta stigu Stjörnumenn rækilega á bensíngjöfina og stungu af.

Tóku gott áhlaup og stoppuðu allar aðgerðir Þórsara. Stjörnumenn einfaldlega einu númeri of stórir fyrir Þórsara hér í kvöld. Lokatölur í Þorlákshöfn, Þór 79-98 Stjarnan.

Af hverju vann Stjarnan?

Einstaklingsgæðin voru einfaldlega of mikil fyrir heimamenn hér í kvöld. Stjarnan spilaði einnig frábæran varnarleik og voru að klára sóknirnar sínar vel. Það er góð uppskrift af sigri.

Hverjir stóðu uppúr?

Antti var frábær hér í kvöld með 22 stig. Spilaði vel bæði í sókn sem og vörn og var heilt yfir frábær.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Þórsara í seinni hálfleik var ekki upp á marga fiska. Virtist á köflum ráðalaus og mjög slakur.

Hvað gerist næst?

Þórsarar fara í Hertz-hellinn og spila við ÍR-inga á meðan að Stjörnumenn eiga heimaleik gegn Val.

Þór Þ.-Stjarnan 79-98 (22-25, 23-26, 15-22, 19-25)

Þór Þ.: Nikolas Tomsick 19/8 fráköst, Kinu Rochford 18/16 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 17/5 stoðsendingar, Jaka Brodnik 12, Davíð Arnar Ágústsson 5, Styrmir Snær Þrastarson 4, Emil Karel Einarsson 2, Ragnar Örn Bragason 2.

Stjarnan: Antti Kanervo 22, Ægir Þór Steinarsson 19/7 stoðsendingar, Brandon Rozzell 15, Collin Pryor 15, Tómas Þórður Hilmarsson 10, Hlynur Elías Bæringsson 7/10 fráköst, Dúi Þór Jónsson 4, Filip Kramer 3, Arnþór Freyr Guðmundsson 3.

Baldur Þór: Stjarnan var bara betri en við

„Stjarnan voru bara betri en við í dag og það vantaði bara alveg töluvert uppá hjá okkur til þess að geta unnið þennan leik í dag,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson þjálfari Þórs eftir tap gegn Stjörnunni í kvöld.

Varnarleikur Þórsara í seinni hálfleik var ekki góður og fengu Stjörnumenn mikið af auðveldum stigum í seinni hálfleik. En hins vegar var varnarleikur Stjörnunnar frábær í seinni hálfleik.

„Þeir voru bara sterkari varnarlega og þá sérstaklega í seinni hálfleik þar sem við vorum í vandræðum. Sóknarlega vorum við kannski að gefa upp ákveðna hluti og þeir voru bara að nýta sér það.“

Stjörnumenn voru fljótir að lesa í sóknarleik heimamanna og er Baldur á því að þeir þurfi einfaldlega að gefa í og vera sterkari í sókninni.

„Við þurfum bara að halda áfram og vera betri. Þurfum að vera sterkari á boltanum og getað höndlað boltapressuna og líka þegar þeir eru að stoppa sendingar hjá okkur.“

Arnar: Þetta var NBA varnarleikur í fyrri

„Ánægður að ná að sigra, til þess erum við í þessu,“ sagði Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnunnar eftir sigur gegn Þórsurum hér í kvöld.

Stjarnan spilaði frábæran varnarleik og þá sérstaklega í seinni hálfleik og Arnar hafði skoðanir á því málefni.

„Þetta var bara NBA varnarleikur í fyrri. Varnarleikurinn lagaðist í seinni hjá okkur og það er það sem skóp sigurinn.“

Þessi leikur var jafn og spennandi framan af og í raun alveg fram í fjórða leikhlutan, þá taka Stjörnumenn öll völd og stuða Þórsarana með góða áhlaupi.

„Við náum hér runn-I sem þeir koma ekki til baka úr. Runn-ið kemur þannig að þeir eiga aldrei séns á að koma til baka.“

Sóknarleikur Stjörnunnar var flottur hér í kvöld og fá þeir mikið framlag frá mörgum leikmönnum hér í kvöld.

„Ég er með góða leikmenn þess vegna spilum við góða sókn. Ég er með stóran og breiðan hóp og það skemmir ekki fyrir.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira