Körfubolti

Clinch: Sagði þeim að ég myndi setja næsta skot niður

Smári Jökull Jónsson skrifar
Lewis Clinch.
Lewis Clinch. Vísir/Bára
Lewis Clinch hefur líklega oft spilað betur en hann gerði í kvöld en þriggja stiga karfan var gríðarlega mikilvæg þegar Grindavík vann sjö stiga sigur á Skallagrím suður með sjó í kvöld.

„Við vorum að spila á móti vinnusömu liði og söknuðum eins af okkar betri leikmönnum í Tiegbe Bamba en aðrir stigu vel upp. Þetta var mikil barátta og mér finnst við enn vera að vinna í okkar málum eftir jólafríið. Við erum búin að leika gegn tveimur ungum og hæfileikaríkum liðum eftir jólin og höfum klárað það vel,“ sagði Clinch þegar Vísir ræddi við hann að leik loknum í kvöld.

Hann sagði að það væri góð tilfinning að vera með fjögur stig úr tveimur leikjum á nýju ári.

„Við töpuðum fyrir Skallagrím áður en ég kom, þeir eru vel þjálfaðir og það er góð byrjun á árinu að ná í sigra. Mér fannst við hleypa þeim full auðveldlega inn í leikinn á ný og þurfum að bæta okkur í að loka leikjunum.“

„Ég vil líta á jákvæðu hliðarnar, það var mjög jákvætt að sjá (Sigtrygg) Arnar koma inn og spila eins og hann getur því mér finnst hann einn af bestu bakvörðunum í deildinni. Að sjá hann koma spila svona vel í sókninni er frábært fyrir framhaldið í deildinni og bikarinn,“ en Grindvíkingar eiga leik gegn KR í 8-liða úrslitum Geysisbikarsins síðar í mánuðinum.

„Það er stórt fyrir okkur að fá hann svona í gang og Ólafur (Ólafsson) gerði mjög vel í seinni hálfleik, barðist vel og setti niður skot.“

Clinch var aðeins búinn að hitta úr einu af átta þriggja stiga skotum þegar langt var liðið á leikinn en þegar innan við mínúta var eftir setti hann risa stóran þrist sem fór langt með að klára leikinn fyrir heimamenn.

„Alltaf þegar ég kom til baka á hliðarlínuna þá hvöttu þjálfararnir mig og liðsfélagarnir sömuleiðis. Þegar ég klikkaði á skotinu á undan því sem ég hitti úr þá sagði ég við þá að ég ætlaði mér að setja næsta niður. Við náðum þessu og það er frábært,“ sagði Clinch brosandi að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×