Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Skallagrímur 90-83 | Seiglusigur hjá Grindavík

Smári Jökull Jónsson í Röstinni skrifar
Lewis Clinch og félagar í Grindavík.
Lewis Clinch og félagar í Grindavík. vísir/bára
Grindavík vann sjö stiga sigur á Skallagrím, 90-83, í baráttuleik suður með sjó í kvöld. Þeir færa sig því nær liðunum í efstu fjórum sætunum en Skallagrímur er í erfiðri stöðu í fallsæti Dominos-deildarinnar.

Það voru gestirnir úr Borgarnesi sem byrjuðu leikinn töluvert betur í kvöld. Þeir komust í 13-5 og varnarleikur heimamanna ekki góður. Þeir tóku hins vegar við sér, náðu 12-2 kafla og voru komnir í forystu fyrir lok fyrsta leikhluta.

Þeirri forystu héldu þeir út hálfleikinn og langt inn í seinni hálfleik. Skallagrímsmenn voru þó aldrei langt undan en alltaf þegar þeir náðu muninum niður fyrir fimm stig komu heimamenn með körfur og juku muninn á ný.

En þegar rúm mínúta var eftir komust Skallagrímsmenn í eins stigs forystu, 83-82. Jóhann Þór þjálfari Grindavíkur var fljótur að taka leikhlé og það svínvirkaði því hans menn skoruðu sex stig í röð og fengu ekki á sig stig það sem eftir lifði leiks.

Eyjólfur Ásberg Halldórsson, leikmaður Skallagríms, nagar sig eflaust í handarbökin því hann braut klaufalega á Sigtryggi Arnari Björnssyni sem fékk þrjú víti þegar gestirnir voru í forystunni. Sigtryggur Arnar nýtti öll vítin og Lewis Clinch skoraði strax í næstu sókn frábæra þriggja stiga körfu og sigurinn var Grindvíkinga.

Lokatöur 90-83 og heimamenn því með tvo sigra á nýju ári í tveimur leikjum, gestirnir hafa hins vegar tapað sínum tveimur leikjum eftir jólafríið.

Af hverju vann Grindavík?

Þeir sýndu karakter í lokin eftir að hafa misst forystuna. Einhver lið hefðu brotnað þá en heimamenn bitu í skjaldarrendur og tryggðu sér stigin tvö. Hittni liðanna fyrir utan þriggja stiga línuna var ekki góð í kvöld en Grindavík setti körfur þegar á þurfti á halda en gestirnir ekki.

Tveir af erlendu leikmönnunum þeirra, Buovac og Samac, þurfa að skila betra framlagi en hittni þeirra var afleit.

Þessir stóðu upp úr:

Sigtryggur Arnar Björnsson átti einn sinn besta leik í Grindavíkurtreyjunni og var sérstaklega öflugur í fyrri hálfleik. Hann endaði leikinn með 26 stig, 5 stoðsendingar og 4 fráköst og var þeirra bestur. Ólafur skilaði fínni vinnu og þá kom Kristófer Breki Gylfason sterkur inn af bekknum.

Nökkvi Már Nökkvason og Jens Valgeir Óskarsson hafa ekki fengið margar mínútur í vetur en fengu að spila töluvert í kvöld og skiluðu mikilvægum stigum og ágætis varnarvinnu.

Hjá Skallagrími var Aundre Jackson langbestur með 35 stig og 10 fráköst og þá var Björgvin Hafþór Ríkharðsson öflugur að vanda og tók oft af skarið þegar á þurfti að halda.

Hvað gekk illa?

Hittni beggja liða fyrir utan þriggja stiga línuna var slök, undir 30%. Aundre Jackson setti fjóra þrista úr fimm tilraunum í kvöld á meðan hinir hittu tveimur skotum af sextán.

Grindvíkingar opnuðu vörnina hjá sér fullauðveldlega á köflum og virtist Jóhann Þór þjálfari sérstaklega ósáttur með Lewis Clinch í upphafi og tók hann af velli strax eftir fimm mínútur þrátt fyrir að hann væri þá búinn að skora öll stig heimamanna í leiknum.

Hvað gerist næst?

Grindavík heldur til Keflavíkur á föstudaginn eftir viku og mætir þar heimamönnum í Suðurnesjaslag. Keflvíkingar völtuðu yfir Grindvíkinga í fyrri leiknum í deildinni en þeir gulklæddu svöruðu fyrir sig með góðum sigri í bikarnum. Það verður því áhugaverður slagur.

Skallagrímur mætir næst sjóðheitu liði Stjörnunnar í Borgarnesti en Garðbæingar völtuðu yfir Blika í kvöld. Stjarnan virðist hafa gert góð viðskipti þegar þeir fengu til sín nýjan erlendan leikmann um jólin og ljóst að það verður við ramman reip að draga fyrir Borgnesinga eftir viku.



Grindavík-Skallagrímur 90-83 (30-26, 19-15, 20-20, 21-22)



Grindavík: Sigtryggur Arnar Björnsson 26/4 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 16/9 fráköst, Lewis Clinch Jr. 14/5 fráköst, Jordy Kuiper 13/10 fráköst, Kristófer Breki Gylfason 10, Jens Valgeir Óskarsson 4, Johann Arni Olafsson 4, Nökkvi Már Nökkvason 3.

Skallagrímur: Aundre Jackson 35/10 fráköst, Bjarni Guðmann Jónson 13/6 fráköst, Matej Buovac 12, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 11/12 fráköst, Eyjólfur Ásberg Halldórsson 4/7 fráköst/11 stoðsendingar, Domogoj Samac 4/13 fráköst, Gabríel Sindri Möller 4.

Clinch: Sagði þeim að ég myndi setja næsta skot niður
Lewis Clinch.Vísir/Bára
Lewis Clinch hefur líklega oft spilað betur en hann gerði í kvöld en þriggja stiga karfan var gríðarlega mikilvæg þegar Grindavík vann sjö stiga sigur á Skallagrím suður með sjó í kvöld.

„Við vorum að spila á móti vinnusömu liði og söknuðum eins af okkar betri leikmönnum í Tiegbe Bamba en aðrir stigu vel upp. Þetta var mikil barátta og mér finnst við enn vera að vinna í okkar málum eftir jólafríið. Við erum búin að leika gegn tveimur ungum og hæfileikaríkum liðum eftir jólin og höfum klárað það vel,“ sagði Clinch þegar Vísir ræddi við hann að leik loknum í kvöld.

Hann sagði að það væri góð tilfinning að vera með fjögur stig úr tveimur leikjum á nýju ári.

„Við töpuðum fyrir Skallagrím áður en ég kom, þeir eru vel þjálfaðir og það er góð byrjun á árinu að ná í sigra. Mér fannst við hleypa þeim full auðveldlega inn í leikinn á ný og þurfum að bæta okkur í að loka leikjunum.“

„Ég vil líta á jákvæðu hliðarnar, það var mjög jákvætt að sjá (Sigtrygg) Arnar koma inn og spila eins og hann getur því mér finnst hann einn af bestu bakvörðunum í deildinni. Að sjá hann koma spila svona vel í sókninni er frábært fyrir framhaldið í deildinni og bikarinn,“ en Grindvíkingar eiga leik gegn KR í 8-liða úrslitum Geysisbikarsins síðar í mánuðinum.

„Það er stórt fyrir okkur að fá hann svona í gang og Ólafur (Ólafsson) gerði mjög vel í seinni hálfleik, barðist vel og setti niður skot.“

Clinch var aðeins búinn að hitta úr einu af átta þriggja stiga skotum þegar langt var liðið á leikinn en þegar innan við mínúta var eftir setti hann risa stóran þrist sem fór langt með að klára leikinn fyrir heimamenn.

„Alltaf þegar ég kom til baka á hliðarlínuna þá hvöttu þjálfararnir mig og liðsfélagarnir sömuleiðis. Þegar ég klikkaði á skotinu á undan því sem ég hitti úr þá sagði ég við þá að ég ætlaði mér að setja næsta niður. Við náðum þessu og það er frábært,“ sagði Clinch brosandi að lokum.

Finnur: Þetta er djöfulli fúlt
Finnur Jónsson á tali við sína menn.vísir/daníel
Finnur Jónsson, þjálfari Skallagríms, var mjög svekktur eftir tapið í Grindavík í kvöld enda hans menn ekki langt frá því að stela sigrinum í lokin.

„Við brjótum á þeim í þriggja stiga skoti í lokin, við klikkum og þeir hitta þristi. Þetta er bara stöngin inn og stöngin út eins og maður segir. Klaufalegt hjá okkur en við lærum af því,“ sagði Finnur við Vísi eftir leik.

Borgnesingar byrjuðu leikinn af miklum krafti en misstu síðan Grindvíkinga fram úr sér og voru að elta allan leikinn.

„Þetta er leikur áhlaupa og ég held að þetta hafi verið besta frammistaða okkar í ansi langan tíma og það er djöfulli súrt að tapa þessu,“ sagði Finnur og var sammála blaðamanni í því að það vantaði framlag frá fleiri lykilimönnum en Aundre Jackson.

„Klárlega. Menn voru að skjóta boltanum illa og léleg skotnýting hjá öðrum. Það var fullt af flottum frammistöðum en aðrir voru bara að hitta illa.“

Skallagrímur situr enn í fallsæti eftir tapið í kvöld og eru fjórum stigum frá öruggu sæti í deildinni.

„Eins og ég sagði þá var þetta betri frammistaða en í síðustu leikjum. Við reynum að byggja ofan á það en þetta er djöfulli fúlt núna, djöfulli fúlt.“

Jóhann Þór: Sama hvað menn reyna þá geta þeir ekki lesið hugsanir
Jóhann Þór Ólafsson þjálfar Grindavíkvisir/bára
Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur var ánægður með þriðja sigur liðsins í röð í Dominos-deildinni. Hann viðurkenndi þó að það hefði farið um hann þegar Skallagrímur komst yfir undir lok leiksins í kvöld.

„Mér leið samt allan tímann mjög vel með þetta þangað til að það var eitthvað lítið eftir og þeir komust yfir. Þeir fóru í 3:2 svæðisvörn og við misstum aðeins taktinn. Fullt sem hægt er að bæta en þetta er góður sigur og góð tvö stig,“ sagði Jóhann eftir leik.

Grindvíkingar léku án Tiegbe Bamba í kvöld en hann er meiddur í baki.

„Klárlega söknum við hans. Við fáum fínt framlag frá strákum sem hafa lítið spilað í vetur og það eru margir ljósir punktar,“ bætti Jóhann við og talaði svo um vörn síns liðs sem hann oft á tíðum var ekki nógu sáttur með.

Við Danni (Daníel Guðni aðstoðarþjálfari) erum að reyna að koma því inn í hausinn á mönnum að liðsvörn stendur og fellur með því að menn tali saman. Ef það er ekki til staðar þá er alveg sama hvað þeir reyna, þeir geta ekki lesið hugsanir hvors annars. Ég ætla að vona að þeir hætti því, að horfa í augun á hverjum öðrum og opni á sér munninn. Það er það sem okkur vantar varnarlega.“

Grindavík var að vinna sinn þriðja sigur í röð og eru að nálgast toppliðin og fjórða sætið sem gefur heimaleikjarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

„Einn leik í einu, þessi gamla, hundleiðinlega klisja. Þetta eru hænuskref og við erum að fara í rosalega dagskrá í næstu leikjum og út janúar. Við reynum að bæta okkar leik og auðvitað stefnum við sem hæst en við teljum bara upp úr pokanum í lokin, það bara bara þetta gamla góða.“

Jóhann sagði lítið vitað hvenær Tiegbe Bamba myndi koma aftur inn í liðið.

„Það er alveg óljóst. Ég vona að hann verði ekki lengi frá en það er ekki alveg búið að finna út hvað þetta er, það er eitthvað að plaga hann í bakinu. Það  verður bara að koma í ljós og ég vona það besta.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira