Handbolti

Austurríkismenn fengu skell gegn Síle

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sílemenn unnu sterkan sigur á Austurríki
Sílemenn unnu sterkan sigur á Austurríki vísir/getty
Síle náði í sín fyrstu stig á HM í handbolta eftir sterkan sigur á lærisveinum Patreks Jóhannessonar í austurríska landsliðinu.

Síle tapaði með 23 mörkum fyrir Danmörku í fyrsta leik á fimmtudagskvöld en sá leikur hefur ekki setið mikið í mönnum því Suður-Ameríkumennirnir unnu átta marka sigur á Patreki og félögum 24-32.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Austurríkismenn voru skrefinu framar þegar flautað var til hálfleiks 15-14. Það hrundi hins vegar allt hjá þeim austurrísku í seinni hálfleik.

Austurríkismenn skoruðu aðeins níu mörk í seinni hálfleik á meðan Síle skoraði 18 og þegar upp var staðið var sigur Síle öruggur.

Robert Weber var bestur Austurríkismanna í dag með 6 mörk. Hjá Síle var Erwin Feuchtmann frábær og skoraði níu marka liðsins.

Þetta var aðeins annar sigur Síle í riðlakeppni HM frá upphafi en liðið hefur þó verið fastagestur á mótinu síðustu ár. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×