Handbolti

Eitt landslið má vera með fjóra fleiri leikmenn en önnur lið á HM í handbolta í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landsliðhópur Kóreu,
Landsliðhópur Kóreu, Mynd/handball19.com
Heimsmeistaramótið í handbolta karla hefst á fimmtudagskvöldið og í dag mun koma í ljós hvaða leikmenn verða í HM-hópi Íslendinga á þessu stærsta heimsmeistaramóti sögunnar.

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands, þarf að taka þá erfiðu ákvörðun að skera niður æfingahópinn en hann mun líklega velja sautján manna hóp.

Hvert landslið á HM 2019 má reyndar aðeins vera með sextán leikmenn í sínum leikmannahóp en líklegast er að Guðmundur vilji fara út með sautján menn og hafa því einn leikmann utan hóps.

Það er reyndar eitt lið á HM í ár sem þarf ekki að fara eftir þessari sextán leikmanna reglu því ein af þátttökuþjóðunum 24 er á sérstakri undanþágu frá Alþjóðahandboltasambandinu.  Þetta kemur fram á heimasíðu IHF.

Þetta er nefnilega sögulegt heimsmeistaramót því Kórea mun tefla þar fram einu sameiginlegu landsliði Suður og Norður Kóreu. Suður-Kóreu menn hafa verið með eitt besta landslið Asíu í marga áratugi en Norður-Kórea hefur aldrei komist á HM fyrr.

HM í ár verður fyrsta handboltastórmótið þar sem öll Kórea teflir fram sameiginlegu handbolta landsliði í karlaflokki.

Cho Young-shin, landsliðsþjálfari Kóreu, verður hinsvegar að velja að minnsta kosti fjóra leikmenn frá Norður Kóreu í hópinn sinn. Það verða því væntanlega sextán Suður-Kóreumenn í hópnum hans.

Kóreumenn spila opnunarleik HM á móti gestgjöfum Þýskalands á fimmtudagskvöldið en sá leikur fer fram í Mercedes-Benz Arena í Berlín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×