ÍBV mætir Potaissa Turda frá Rúmeníu í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Áskorendabikars Evrópu í handbolta í Vestmannaeyjum á morgun en þar geta Eyjamenn hefnt fyrir svindl Rúmenanna á síðustu leiktíð.
Turda er annað árið í röð komið í undanúrslitin, en á síðustu leiktíð mætti það Valsmönnum á sama stigi keppninnar og tapaði fyrri leiknum á Íslandi með átta marka mun, 30-22.
Seinni leikurinn var algjör sirkus þar sem rúmenska félagið hafði augljóslega náð til dómara leiksins sem voru sér og handboltanum til skammar í níu marka tapi Vals, 32-23.
Turda fór í úrslitaviðureignina þar sem það fékk sem betur fer samanlagðan fimmtán marka skell gegn Sporting frá Portúgal og hafnaði í öðru sæti.
Í frétt á heimasíðu evrópska handknattleikssambandsins er gert mikið úr því að fyrri leikirnir í undanúrslitunum fara báðir fram á eyju. ÍBV spilar sinn leik á Heimaey í Vestmannaeyjum en hin viðureignin hefst líka á eyju. Og það víðfrægri eyju.
Portúgalska liðið Madeira Andebol SAD vonast nefnilega til að halda Áskorendabikarnum í Portúgal eftir sigur Sporting í fyrra en liðið er staðsett á eyjunni Madeira sem er heimaeyja eins besta fótboltamanns sögunnar, Cristiano Ronaldo.
Madeira-liðið mætir AEK Aþenu frá Grikklandi sem hefur, líkt og Madeira-menn, aldrei komist í úrslitaeinvígi í Evrópukeppni.
Það eru bara stórleikir framundan hjá ÍBV sem mætir Haukum í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildarinnar á þriðjudagskvöldið á milli leikjanna við Turda.

