Mikið úrval þýskra
Mercedes Benz mun sýna 2020 árgerðina af GLE tengiltvinnjeppanum, sem og hinum nýja rafmagnsbíl EQ C sem Benz reyndar svipti hulunni af fyrir skömmu. Raunar verður Audi með marga nýja bíla í París, auk A1 verður þar A3, hinn glænýi Q8 og heyrst hefur að Audi muni frumsýna nýjan Audi Allroad líka. Þá mun BMW líka sýna hinn glænýja 8-Series bíl með yfir 500 hestöfl undir húddinu og auðvitað nýja sportbílinn BMW Z4. Þá verður á pöllunum spennandi ný gerð Suzuki Jimny sem fengið hefur flotta dóma og verður kynntur blaðamönnum í Þýskalandi í næstu viku. Verður fulltrúi Fréttablaðsins þar á meðal bílablaðamanna.
Margir framleiðendur skrópa
Þrátt fyrir að margir bílar verði til sýnis í París er áhyggjuefni fyrir sýningarhaldara þar, sem og aðrar bílasýningar, hve margir bílaframleiðendur halda sig þessi misserin frá stóru bílasýningunum. Núna vantar til dæmis Volkswagen, Opel/Vauxhall, Nissan, Infinity, Ford, Volvo, Subaru, Mazda, Mitsubishi og Lamborghini á sýninguna í París, bara svo nokkrir bílaframleiðendur séu nefndir. Bílasýningin í París er elsta bílasýning í heimi og sú fyrsta var haldin árið 1898. Árið 1946 komu 800.000 gestir á sýninguna og hefur hún verið afar vel sótt síðan, þó nú sé nokkrar blikur á lofti. Árið 1954 mættu yfir milljón manns á bílasýninguna í París.
