Handbolti

Selfyssingar byrjaðir að líta í kringum sig eftir nýjum þjálfara

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Patrekur Jóhannesson á bara nokkra mánuði eftir sem þjálfari Selfyssinga.
Patrekur Jóhannesson á bara nokkra mánuði eftir sem þjálfari Selfyssinga. vísir/bára
Patrekur Jóhannesson yfirgefur Selfoss í Olís-deild karla í handbolta eftir tímabilið eins og greint var frá í gær en hann tekur við Danmerkurmeisturum Skjern næsta sumar.

Patrekur hefur vakið mikla athygli með ungt lið Selfyssinga sem að varð í öðru sæti í Olís-deildinni á síðustu leiktíð og komst í undanúrslit bikarsins og í úrslitakeppninni þar sem að það tapaði í oddaleik fyrir FH.

Selfyssingar þurfa nú að finna sér nýjan þjálfara til að taka við liðinu og þó þeir hafi nægan tíma er ekki seinna vænna en að fara að skoða hvað gerist næsta sumar.

„Við skoðum þetta í rólegheitunum en erum auðvitað farin að líta í kringum okkur,“ segir Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss, í viðtali við Sunnlenska.is.

„Hann er búinn að halda okkur upplýstum um samskiptin við Skjern og við erum að sjálfsögðu ánægð fyrir hans hönd. Þetta er stórt tækifæri fyrir hann og að svona öflugt lið velji hann sem þjálfara finnst mér líka vera töluverð viðurkenning á því góða starfi sem verið er að vinna hjá deildinni hér á Selfossi,“ segir Þórir.

Selfoss tapaði óvænt fyrir Akureyri í lokaumferð Olís-deildarinnar fyrir jól og fer í jólafríið í þriðja sæti en það er einnig komið í átta liða úrslit bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×