Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Fram 29-28 │Dramatík í mikilvægum sigri ÍBV

Einar Kárason skrifar
Kári Kristjánsson.
Kári Kristjánsson. Vísir/Ernir
Fallbarátturslagur er mögulega rétta orðið yfir leik kvöldsins sem fór fram í Vestmannaeyjum milli ÍBV og Fram. Bæði lið hafa átt í erfiðleikum það sem af er móti og sátu í 9. og 10. sæti fyrir leik, Framarar með 7 stig en Eyjamenn 6.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en munurinn milli liðanna varð aldrei stærri en 2 mörk. Liðin skiptust á að skora og fór Sigurbergur Sveinsson fyrir liði heimamanna á meðan Þorsteinn Gauti Hjálmarsson dró vagninn fyrir gestina. ÍBV voru yfir þegar hálflleiksbjallan glumdi, 14-12.

Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleiknum. Þeir hvítklæddu voru yfir, en bláklæddir alltaf skammt undan. Þegar líða tók á leikinn komust Eyjamenn 3 mörkum yfir og hefðu getað bætt því fjórða við en klaufaskapur í sóknarleik varð til þess að Framarar sóttu á og úr varð hádramatík.

Sigurbergur lét Viktor Gísla Hallgrímsson verja frá sér víti og gestirnir brunuðu upp og minnkuðu muninn í 1 mark. Eyjamenn töpuðu þá boltanum aftur og hugsuðu sennilega flestir hallargestir allt það versta en ekki varð úr því. Fram tóku leikhlé þegar 20. sekúndur voru eftir en sóknin var illa útfærð og Eyjamenn fögnuðu því fyrsta heimasigri sínum síðan 15.september.

Af hverju vann ÍBV?

Lykilmenn duttu í gang. Sigurbergur var gjörsamlega frábær fram á við og liðið virkaði mun þéttara og öflugra en oft áður.

Hvað gekk illa?

Það er erfitt að taka eitthvað neikvætt úr þennan leik. Frábær skemmtun fyrir hlutlausan. Síðasta sókn Fram gekk þó afskaplega illa, vægast sagt.

Hverjir stóðu upp úr?

Liðin áttu sitthvorn stjörnuleikmanninn í dag. Hjá ÍBV var það Sigurbergur Sveinsson sem skoraði 13 mörk á meðan Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skoraði 11 fyrir gestina. Margir fleiri áttu góðan leik en við leyfum þessum tveimur að eigna sér þetta.

Hvað gerist næst?

ÍBV fara á Seltjarnarnesið og leika við Gróttu á meðan Fram heimsækir Valsmenn.

Erlingur: Þetta var eiginlega það sem okkur vantaði

,,Þetta var eiginlega það sem okkur vantaði,” sagði Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV eftir leik. ,,Að ná einum sigri eftir nokkuð góða frammistöðu. Heilt yfir er ég ánægður með leikinn.”

,,Þetta hafðist. Eitt mark. Munurinn ekki mikill en eins og ég var að enda við að segja þá var frammistaðan heilt yfir mjög góð. Varnarleikurinn sterkur. Bjössi kom sterkur inn í seinni hálfleiknum. Sóknarleikurinn heilt yfir vel skipulagður og við náðum að skora 29 mörk sem er yfirleitt okkar tala. Það var svolítið súrt að vera alltaf að tapa með svona mörg mörk skoruð, en það var gott að vinna, já.”

Eyjamenn hafa þurft að bíða eftir sigri. Er þetta leikurinn sem keyrir liðið áfram? ,,Já, kannski. Maður veit aldrei. Það er alltaf gott að ná sigri eftir svona langa hrinu af tapleikjum þannig að vissulega er þetta smá léttir en við þurfum að halda áfram og vinna áfram í okkar leik og bæta hann. Vera klárir í næsta leik.”

,,Við vitum að þessi deild er sterk, allir að vinna alla og við þurfum að vera vel undirbúnir gegn Gróttu. Svo kemur bikarleikur gegn Gróttu og það er alltaf erfitt þegar það eru svona tveir leikir í röð gegn sama liði og við þurfum að gíra okkur inn á það,” sagði Erlingur að lokum.

Guðmundur Helgi: Stundum er gott að hlusta á þjálfarann

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, var skiljanlega súr eftir tapleikinn. ,,Nei því miður (innsk. datt þetta ekki með okkur). Það eru klaufamistök hjá okkur. Látum reka okkur útaf fyrir mjög lítið. Aftur á móti góð reynsla hjá þeim að fiska okkur útaf sem verður til þess að við töpum þessum leik.”

Framarar mættu til Eyja með sigurleik á bakinu og ætluðu sér að taka stigin 2. ,,Að sjálfsögðu. Sigurbergur var náttúrulega frábær í dag. Sýndi loksins sitt rétta andlit og það var erfitt að eiga við hann. Þetta var hörkuleikur allan tímann og við ætluðum okkur aðeins meira en svona er þetta. Því miður datt þetta ekki með okkur.”

,,Akkurat öfugt við það sem var gert”, sagði Guðmundur um hvað lagt var upp með í síðustu sókn leiksins þar sem í boði var að jafna leikinn. ,,Boltinn átti að fara út í horni og hann bara fór akkurat í hina áttina. Þetta fer í reynslubankann hjá strákunum. Stundum er gott að hlusta á þjálfarann.”

Sigurbergur: Ég er ánægður með sjálfan mig, ég viðurkenni það alveg

,,Það var mjög mikilvægt að ná í þessi 2 stig. Meira er það ekki sko,” sagði Sigurbergur Sveinsson sem átti stórleik í kvöld og sýndi í hvað honum býr.

Eyjamenn hafa spilað undir væntingum það sem af er. Oft þarf ekki nema einn leik til að snúa blaðinu við.

,,Þetta er ágætis byrjun. Fínasta holning á liðinu í dag. Síðan eru alltaf punktar hérna þar sem við getum gert betur en þetta er allavega klassa byrjun. Geggjuð stemmning hérna og menn klárir í slaginn.”

,,Mér leið vel í dag og spilaði fínann leik. Ég er ánægður með sjálfan mig, ég viðurkenni það alveg”, sagði Sigurbergur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira