Handbolti

Haukur Þrastar með leik upp á 9,9 í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Þrastarson.
Haukur Þrastarson. GBL/eyþór
Haukur Þrastarson var allt í öllu hjá Selfyssingum í gærkvöldi þegar liðið vann fimm marka sigur á Fram 28-23 á Selfossi.

Haukur var næstmarkahæstur í Selfossliðinu með sex mörk en hann gaf líka níu stoðsendingar á félaga sína í liðinu. Haukur átti líka eina sendingu sem gaf vítakast sem gaf mark.

Haukur skapaði því 16 mörk fyrir Selfoss í leiknum og það með því að nýta skotin sín 75 prósent og tapa aðeins einum bolta allan leikinn.

Sex marka leikur er ekki óalgengur hjá þessum sautján ára gamla strák því þetta var í sjötta sinn í vetur, í níu leikjum, sem Haukur skorar sex mörk.

Einkunnagjöf HB Statz var líka ánægð með unga Selfyssinginn í gær sem fékk 9,9 í einkunn fyrir leikinn. Haukur fékk 10 fyrir sóknarleikinn og 7,7 fyrir varnarleikinn.

Þetta er það mesta sem Haukur hefur gefið að stoðsendingum í einum leik á tímabilinu en hann var með sex stoðsendingar á móti ÍBV. Eyjaleikurinn er einnig besti markaleikur hans á tímabilinu en hann skoraði sjö mörk í honum.

Haukur átti alls þátt í 15 mörkum í Eyjaleiknum en bætti það með sextán marka framleiðslu sinni í Iðu í gærkvöldi.

Í níu leikjum er Haukur með 5,2 mörk og 3,2 stoðsendingar að meðaltali en hann hefur nýtt 61 prósent skota sinna og tapað aðeins 0,8 boltum að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×