Leikjavísir

Ævintýralegar vinsældir Red Dead Redemption

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Take-Two Interactive, eigandi Rockstar, hefur greint frá því að á fyrstu átta dögunum hafi leikurinn selst í heilum sautján milljónum eintaka.
Take-Two Interactive, eigandi Rockstar, hefur greint frá því að á fyrstu átta dögunum hafi leikurinn selst í heilum sautján milljónum eintaka.

Það er ekki hægt annað en að segja að tölvuleikjaunnendur hafi tekið Red Dead Redemption 2, úr smiðju Rockstar Studios, opnum örmum. Í leiknum er spilað í gegnum ævintýri útlagans Arthurs Morgan í Villta vestrinu en þótt leikurinn kallist númer tvö er á ferðum forsaga fyrri leiksins, Red Dead Redemption.

Take-Two Interactive, eigandi Rockstar, hefur greint frá því að á fyrstu átta dögunum hafi leikurinn selst í heilum sautján milljónum eintaka. Þannig hafi hann selst í fleiri eintökum en fyrirrennarinn gerði á átta árum. Samkvæmt frétt Fortune gerðu greinendur ráð fyrir því að tíu til tólf milljónir eintaka myndu seljast á fyrstu þremur mánuðunum.

„Við erum afar ánægð með hvernig þetta gengur. Við höfum selt meira en sautján milljónir eintaka. Til þess að setja þá sölu í samhengi þá eru það fleiri eintök en seljast af flestum tölvuleikjum alla þeirra stafrænu ævi,“ sagði forstjórinn Strauss Zelnick við Fortune.

Áður hafði fyrirtækið sagt frá því að leikurinn hafi selst fyrir 725 milljónir dala fyrstu þrjá dagana. Einungis einn leikur hefur toppað þá tölu og það er Grand Theft Auto V, einnig úr smiðju Rockstar.

Gagnrýnendur eru alveg jafnhrifnir af Red Dead og aðrir. Samkvæmt meðaltali dóma sem Metacritic tekur saman fær leikurinn 97 af 100 og hefur enginn leikur fengið betri einkunn í ár. Sé horft til bestu leikja allra tíma deilir Red Dead sjötta sætinu með fjölmörgum leikjum. Enginn hefur fengið 100 stig en The Legend of Zelda: Ocarina of Time situr efst með 99.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.