Körfubolti

Brynjar: Ég elska KR þó ég hafi skipt um lið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í DHL höllinni skrifar
Brynjar fagnaði Íslandsmeistaratitli með KR í vor
Brynjar fagnaði Íslandsmeistaratitli með KR í vor vísir

Brynjar Þór Björnsson snéri aftur í vesturbæ Reykjavíkur þegar KR og Tindastóll mættust í Meistarakeppni KKÍ. Brynjar sagðist ekki hafa vitað hvernig móttökur hann fengi eftir að hafa yfirgefið KR fyrir Tindastól í sumar.

Brynjar skoraði 17 stig í öruggum 72-103 sigri bikarmeistara Tindastóls á Íslandsmeisturum KR.

„Mjög gaman að prófa að spila fyrir annað lið og kynnast öðru fólki. Það er mikil körfuboltahefð á Króknum og maður er að átta sig á því að lífið er körfubolti þarna,“ sagði Brynjar í leikslok um það hvernig væri að vera kominn í vínrauðu treyjuna.

„Við viljum gera vel fyrir fólkið og sýna góðan árangur og þetta er fyrsti þátturinn í því.“

Brynjari var vel fagnað þegar liðin voru kynnt inn á völlinn fyrir leik.

„Auðvitað vissi maður ekki alveg hvernig yrði tekið á móti manni, en ég held að móttökurnar hafi bara verið góðar.“

„Ég elska KR alveg þó ég hafi skipt um lið. Þetta er mitt uppeldisfélag og það er ekki hægt að taka neitt frá mér sem ég gerði hérna. Ég er mjög stoltur af mínum ferli í KR.“

Þrátt fyrir að bera taugar til uppeldisfélagsins fóru Brynjar og hans nýju félagar illa með gömlu liðsfélagana í leiknum sjálfum og sá KR-liðið lítið til sólar í leiknum.

„Þeir eru náttúrulega vængbrotnir. Jón er nýbyrjaður að æfa aftur og eru búnir að missa svakalegan kjarna úr hópnum í mér og Darra og svo er Pavel ekki með og Kristófer Acox. Það eru miklar breytingar en þeir eru með góða stráka og hæfileikaríka, sem eiga bara eftir að stíga upp,“ sagði Brynjar Þór Björnsson. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.