Umfjöllun og viðtöl: Akureyri - Selfoss 30-36 │Selfoss sótti tvö stig til Akureyrar

Arnar Geir Halldórsson á Akureyri skrifar
Patti sótti tvö stig norður
Patti sótti tvö stig norður vísir
Selfyssingar eru með fullt hús stiga eftir tvo leiki í Olís-deild karla eftir að liðið gerði góða ferð til Akureyrar í kvöld og bar sigurorð af Akureyri Handboltafélagi, 30-36 að viðstöddum 523 áhorfendum í Íþróttahöllinni á Akureyri.

Liðin skiptust á að hafa forystuna á fyrstu mínútum leiksins en þegar líða tók á fyrri hálfleikinn sigldu gestirnir fram úr og náðu mest fjögurra marka forskoti. Staðan í leikhlé 14-18 fyrir Selfoss.

Akureyringar misstu mann af velli í fyrri hálfleik því Úkraínumaðurinnn Leonid Mykhailiutenko fékk að líta beint rautt spjald fyrir brot á Hauki Þrastarsyni eftir tæplega 20 mínútna leik. Úkraínumaðurinn lenti í því nákvæmlega sama í fyrstu umferðinni gegn KA.

Selfyssingar virtust ætla að keyra yfir Akureyringa í upphafi síðari hálfleiks og voru komnir með sex marka forystu snemma í síðari hálfleik.

Heimamenn voru hins vegar ekki á því að gefast upp og náðu að minnka muninn í þrjú mörk þegar tæpar fimmtán mínútur lifðu leiks. Akureyri fékk gullin tækifæri til að komast enn nær Selfyssingum en fóru illa með nokkur dauðafæri á mikilvægum augnablikum.

Í kjölfarið sigldi Selfoss nokkuð þægilegum sex marka sigri í höfn. Lokatölur 30-36.

Afhverju unnu Selfyssingar?

Fyrir það fyrsta er getumunurinn á þessum liðum töluverður. Selfyssingar hafa á að skipa einu allra besta liði landsins og þeir höfðu einfaldlega fleiri vopn í sínu vopnabúri í kvöld. Varnarleikur Akureyrar var allt of slakur á löngum stundum í leiknum og þeir geta gleymt því að kroppa í stig af bestu liðum landsins með slíkum varnarleik.

Hvað gekk illa?

Leonid Mykhailiutenko fær að eiga þennan lið. Úkraínumanninum stóra og stæðilega er ætlað stórt hlutverk hjá Akureyringum og þá sérstaklega í varnarleiknum. Að láta reka sig út af í fyrstu tveimur leikjum mótsins er varla boðlegt. Vissulega var rauða spjaldið gegn KA mjög umdeilt en erfitt að deila um dóminn í kvöld.

Einnig má benda á markvörsluna, hún var léleg hjá báðum liðum.

Hverjir stóðu upp úr?

Stórstjörnur Selfyssinga stóðu fyrir sínu. Haukur Þrastarson, Elvar Örn Jónsson og Atli Ævar Ingólfsson sýndu það reglulega að þeir eru betri en flestir aðrir handboltamenn hér á landi. Stigu upp þegar Selfoss þurfti á þeim að halda.

Fyrirliði Akureyringa, Friðrik Svavarsson, á heima undir þessum lið líka. Nýtti öll átta skot sín í leiknum. Skotnýting oft verið vandamál hjá þessum baráttujaxl en hann var virkilega öflugur í sókninni í dag. Þó slakur varnarlega líkt og margir liðsfélagar hans.

Hvað gerist næst?

Akureyri Handboltafélag fer í Schenkerhöllina að Ásvöllum næstkomandi laugardag á meðan Selfyssingar leika sinn fyrsta heimaleik eftir slétta viku þegar Afturelding fer á Selfoss.

 

,,Unnum þennan leik á sóknarleiknum“„Ég er ánægður eins og yfirleitt þegar maður vinnur. Ánægður með tvö stig. Við spiluðum sóknarlega mjög vel en varnarlega vorum við ekki nægilega sterkir og markvarslan ekkert sérstök. Það er mjög ánægjulegt að ná í tvö stig hér á Akureyri. Það er sterkt,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfyssinga í leikslok.

Patrekur segir ekkert í leik Akureyrar hafa átt að koma sínum mönnum á óvart.

„Þeir komu okkur alls ekki á óvart. Þeir spiluðu frá upphafi 7 á móti 6 og þeir mega eiga það að þeir voru þolinmóðir. Við héldum kannski ekki alveg einbeitingu. Í seinni hálfleik vorum við ekki að ná nógu mörgum fríköstum og ég er ekki ánægður með það en við vinnum þennan leik á sóknarleik,“ segir Patrekur.

„Það var ekki auðvelt að fara í Breiðholtið og ég vissi að Akureyringar yrðu erfiðir. Þó þetta hafi endað í sex mörkum var þetta í 2-3 mörkum um miðjan seinni hálfleik. Ég er ánægður með byrjunina á mótinu en er strax byrjaður að hugsa um næsta verkefni sem er Afturelding,“ sagði Patrekur að endingu.

,,Gerðum markvörðunum okkar erfitt fyrir“
Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar.vísir/getty
Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar, var vonsvikinn með varnarleik sinna manna.

„Þetta eru klárlega vonbrigði. Við ætluðum okkur að verja heimavöllinn og vinna þennan leik. Við töldum okkur hafa lausnir til þess en því miður þá gekk það ekki,“

„Við hefðum viljað vera grimmari varnarlega. Við gerðum markvörðunum okkar erfitt fyrir; vorum ekki að ná mörgum fríköstum og þar af leiðandi ekki mörg varin skot að ég held. 36 mörk á okkur sýna það en það er jákvætt að skora 30 mörk og mér fannst margt jákvætt. Við þurfum að skoða þennan leik vel,“

„Við hefðum getað gert betur. Ég ætla ekkert að taka af Selfossi. Frábærir einstaklingar og frábært lið sem er komið með töluverða reynslu núna eftir tímabilið í fyrra. Við vissum að þetta yrði verðugt verkefni en það var engin hræðsla í okkur og við ætluðum okkur tvö stig,“ sagði Sverre.

Atli Ævar: Spilum oft Brassabolta
Atli Ævar Ingólfsson er í lykilhlutverki hjá Selfossivísir/getty
„Við vorum allan leikinn að bíða eftir að vörnin myndi smella hjá okkur. Við vorum klaufar. Stóðum oft góða vörn í 30-40 sekúndur en þeir spiluðu langar sóknir og gerðu það bara vel. Við vorum að opna okkur og missa af boltum á síðasta mómentinu í vörninni. Við náðum því ekki allan leikinn og markvarslan kom ekkert með okkur út af því,“ sagði einn besti leikmaður Selfoss í leiknum, línumaðurinn Atli Ævar Ingólfsson.

Hann var ekki smeykur um að Selfoss myndi missa þennan leik í hendur Akureyringa en hafði orð á því að svona spilamennska muni ekki skila liðinu Íslandsmeistaratitli.

„Við spilum oft bara einhvern Brassabolta þar sem við skorum bara fleiri mörk en hitt liðið. Við gerðum það í dag en maður verður ekkert Íslandsmeistari með svoleiðis spilamennsku,“

„Ég myndi segja að við getum auðveldlega keppt við bestu liðin. Við gerðum það í fyrra. Okkar markmið er að komast í úrslitakeppnina og taka stöðuna þá. Við förum bara í alla leiki til þess að vinna þó það sé klisja og allt það,“ sagði Atli Ævar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.