Skoðun

Stafræn innleiðing – er þetta ekki bara UT-mál?

Guðrún Ragnarsdóttir skrifar
Í umræðunni um stafrænu byltinguna (Fjórðu iðnbyltinguna) vaknar oft eftirfarandi spurning: „Er þetta ekki bara UT-mál?“ Því er auðsvarað. Nei! Stafræna byltingin byggir á nýju viðskiptamódeli þar sem viðskiptavinurinn er í forgrunni. Fyrirtæki og stofnanir sníða þjónustu sína að þörfum viðskiptavinarins í stað þess að ætlast til þess að viðskiptavinurinn aðlagi sig að kerfum og starfsháttum fyrirtækisins eða stofnunarinnar. Á sama tíma og starfandi fyrirtæki og stofnanir reyna að nýta sér stafræna tækni til þess að standast betur væntingar viðskiptavinarins fjölgar stöðugt sprotafyrirtækjum sem nálgast viðskiptavini sína á nýjum forsendum.

Við þekkjum öll dæmi um þetta og eru þau þekktustu Uber og Airbnb. Hins vegar eru miklu fleiri fyrirtæki sem hafa náð að aðlagast þessum nýja heimi eins og t.d. Amazon sem hefur útvíkkað sitt upprunalega viðskiptamódel frá því að selja bækur yfir í að selja allt á milli himins og jarðar þ.m.t. fjármálaþjónustu. Við eigum líka okkar íslensku dæmi og má þar nefna Nova með Aur appið og Nova TV.

Alþjóðavæðingin og breytt viðhorf yngri kynslóða eru einnig mikilvægir þættir stafrænu byltingarinnar. Internetið hefur afmáð öll landamæri þegar kemur að verslun og þjónustu. Samfélagsmiðlar hafa smækkað heiminn enn frekar þar sem viðskiptavinir, hvort sem þeir eru ánægðir eða ekki, geta látið aðra vita á örfáum sekúndum. Breytt viðhorf yngri kynslóða eins og aldamótakynslóðarinnar flækir enn myndina fyrir hefðbundin fyrirtæki og stofnanir þar sem unga fólkið er sífellt leitandi að bestu lausnunum hvort sem það er í starfi eða við kaup á vöru eða þjónustu. Tryggð er eitthvað sem þessi kynslóð metur ekki eins og eldri kynslóðir hafa gert, sem þýðir nýjar áskoranir í rekstri fyrirtækja og stofnana.

Á Strategíudeginum 2018 munu forsvarsmenn fimm fyrirtækja: Landsbankans, Já, VÍS ásamt Nettó og AHA segja frá reynslu sinni af því að nýta stafræna tækni til að bæta þjónustu sína og jafnvel að endurhanna hana frá grunni. Það ætti enginn stjórnandi, hvort sem hann er í einka- eða opinbera geiranum, að láta þetta tækifæri framhjá sér fara. Framtíðin er núna!



Höfundur er meðeigandi og ráðgjafi Strategíu.





Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×