Handbolti

Tekið á móti silfurhöfunum í dag: „Kom mér ekki á óvart“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Íslenska landsliðið í handbolta skipað drengjum átján ára og yngri fékk varmar móttökur í höfuðstöðvum HSÍ er liðið kom heim með silfrið frá EM í Króatíu.

Ísland tapaði úrslitaleik gegn Svíum í gær en frammistaða drengjanna vakti mikla athygli.

„Ég er gríðarlega stoltur. Strákarnir hafa staðið sig frábærlega þessa tólf daga í Króatíu og stígandinn var mikill,” sagði Heimir Ríkharðsson, þjálfari liðsins.

„Framkoma innan og utan vallar var einnig til fyrirmyndar,” en var þetta árangur sem kom Heimi á óvart?

„Við vorum í gríðarlega erfiðu liði. Við vorum með Slóvenum sem börðust um Ólympíutitilinn í fyrra, Svíum sem unnu Opna Evrópumótið í fyrra og takmarkið var að tryggja okkur á næsta EM.”

„Þá hefðum við þurft að vera í topp ellefu. Það var fyrsta markmið og síðan þegar við byrjum á því að vinna Pólland, Slóveníu og Svíþjóð og getum byrjað að hvíla menn þá breyttum við aðeins áherslunum.”

„Eftir að við komumst í átta liða úrslitin þá var takmarkið fjögurra liða úrslitin og svo koll af kolli. Þetta kom mér ekki á óvart. Þessir strákar unnu Sparekassen-mótið í Þýskalandi um jólin í fyrra.”

Haukur Þrastarson fór á kostum á mótinu. Hann var valinn besti leikmaður mótsins og segist þó hafa enn verið smá súr eftir tapið í gær.

„Já aðeins súr eftir tapið en við getum verið ánægðir með árangurinn þó svo að þetta hafi farið illa í gær. Við erum með leikmenn sem eru með reynslu úr Olís-deildinni, frábæran hóp og næstu mót fari mjög vel. Við getum gert góða hluti.”

Allt innslagið má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×