Skoðun

Aðgerðir í leikskólamálum skila árangri

Skúli Þór Helgason skrifar
Mun betur gengur að ráða í lausar stöður á leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi en undanfarin ár. Lausar stöður eru nú helmingi færri í leikskólum og grunnskólum en á sama tíma í fyrra og horfurnar betri í frístund. Nú er búið að ráða í nær 94% stöðugilda í leikskólum borgarinnar og 98% í grunnskólunum.

Eftir er að ráða í 62 stöðugildi á leikskólum sem er að meðaltali eitt stöðugildi á hvern hinna 62 leikskóla borgarinnar. Tvöfalt fleiri leikskólar eru fullmannaðir. Þennan árangur má þakka góðu samstarfi stjórnenda leikskóla og starfsfólks skóla- og frístundasviðs, markvissri kynningarherferð um mikilvægasta starf í heimi, markhópavinnu gagnvart háskólanemum og ungu fólki og kynningu á þeim umtalsverðu hlunnindum sem bjóðast starfsfólki hjá leikskólum borgarinnar, s.s. afslætti af leikskólagjöldum, samgöngustyrkjum, ókeypis máltíðum, menningar- og sundkortum, fjármagni til heilsueflingar o.m.fl. Síðast en ekki síst hefur verið gripið til fjölmargra aðgerða til að bæta starfsumhverfið, s.s. með hækkun launa, fjölgun undirbúningstíma, auknu rými fyrir börn og starfsfólk, fjölgun starfsfólks á elstu deildum o.fl. Þróunin er í rétta átt en vissulega er enn verk að vinna. Við verðum ekki ánægð fyrr en leikskólarnir eru fullmannaðir og öll börn með úthlutað leikskólarými hafa hafið sína leikskólagöngu.

Nú eru um 200 börn á biðlista eftir leikskólaplássi og er því langur vegur frá að fullyrðingar um 1.600 barna biðlista fái staðist. Það sem meira er, allt bendir til að öll þessi 200 börn fái boð um leikskólavist í haust því nú eru ríflega 300 laus pláss á leikskólum borgarinnar. Og horfurnar eru góðar því við munum fjölga leikskólaplássum í haust með nýjum deildum við nokkra eftirsóttustu leikskóla borgarinnar og fjölgun barna við einkarekna leikskóla. Nýr meirihluti í borginni ætlar að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölgun ungbarnadeilda og byggingu nýrra leikskóla auk aðgerða til að styrkja dagforeldrakerfið. Eftir þeirri stefnu störfum við af fullum krafti samhliða baráttu við að fjölga leikskólakennurum sem er forgangsmál til framtíðar.




Skoðun

Sjá meira


×