Erlent

Tugir myrtir í fjórum árásum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Afganskir hermenn hjálpa særðum félaga við alþjóðaflugvöllinn í Kabúl eftir að sjálfsmorðsárás var gerð.
Afganskir hermenn hjálpa særðum félaga við alþjóðaflugvöllinn í Kabúl eftir að sjálfsmorðsárás var gerð. Vísir/AFP
Gærdagurinn markaðist af mannskæðum árásum. Fregnir bárust af hryðjuverkaárásum í Afganistan, Tsjad og Pakistan í gær. Frambjóðandi myrtur í Pakistan og ellefu leigubílsstjórar myrtir í Suður-Afríku eftir harðar deilur. 

Sjálfsmorðsárás á alþjóðaflugvöllinn í Kabúl kostaði ellefu Afgana lífið

Sjálfsmorðsárásarmaður myrti að minnsta kosti ellefu og særði fjórtán við inngang alþjóðaflugvallarins í Kabúl á sunnudag. Najib Danish, upplýsingafulltrúi innanríkisráðuneytisins, sagði að árasarmaðurinn hafi verið fótgangandi og að eitt barn hið minnsta væri á meðal hinna látnu. Mikill fjöldi hafði safnast saman á flugvellinum til þess að bjóða varaforsetann og fyrrverandi stríðsherrann Abdul Rashid Dostum velkominn heim úr útlegð. 

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar, stærstu stjórnmálaflokka og stuðningsmenn Dostum voru á leið út af flugvellinum eftir móttökuathöfnina þegar árásin var gerð. Dostum særðist ekki í árásinni. Hann tilheyrir þjóðflokki Úsbeka og fór í sjálfskipaða útlegð fyrir að hafa lagt á ráðin um nauðgun og pyntingar andstæðings síns í stjórnmálum árið 2017 en hin umrædda árás á að hafa verið gerð 2016. Hann hefur verið varaforseti frá árinu 2014 og missti stöðu sína ekki þegar hann fór í útlegð. 

AFP greinir frá því að Ashraf Ghani forseti, sem tilheyrir þjóðflokki Pashtuna, hafi samþykkt heimkomu Dostums til þess að koma á stöðugleika í norðurhluta landsins, en þar hefur útlegð hans verið mótmælt af krafti. Þá er ákvörðunin sögð til þess gerð að tryggja stuðning Úsbeka fyrir forsetakosningar  næsta árs. Dostum hefur alla tíð neitað fyrrnefndum ásökunum og sagðist hafa farið úr landi til að gangast undir læknisskoðun og vegna fjölskyldu sinnar. New York Times greindi frá málinu sem varð til þess að hann var sendur í útlegð árið 2016. Á hann að hafa rotað Ahmad Ischi, formann Junbish-flokksins, og numið á brott þegar þeir voru saman á íþróttaleik. Menn Dostum eru sakaðir um að hafa haldið Ischi gegn vilja sínum í fimm daga, nauðgað honum og gengið ítrekað í skrokk á honum.

Lögregla í Nígeríu handtók átta meinta Boko Haram-liða fyrir helgi sem grunaðir eru um að hafa tekið þátt í ráni á 200 skólastúlkum í bænum Chibok. Samtökin hafa kostað að minnsta kosti 20.000 lífið undanfarin ár.Vísir/afp

Skáru átján og háls og námu tíu á brott

Talið er að vígamenn Boko Haram hafi staðið að hryðjuverkaárás á smábæinn Kaiga-Kindjiria í Tsjad, stuttu frá landamærunum við Níger og rétt norðvestan af Tsjad-vatni. Herinn þar í landi greindi fyrst frá árásinni í gær, en sagði hana hafa verið gerða á fimmtudagskvöld.

„Árásarmennirnir skáru átján á háls, særðu tvo til viðbótar og námu tíu konur á brott,“ var haft eftir heimildarmanni í umfjöllun AFP.

Hryðjuverkasamtökin hafa skilið eftir sig sviðna jörð í Nígeríu og nærliggjandi ríkjum allt frá því þau gripu til vopna árið 2009. Að minnsta kosti 20.000 hafa farist í árásum þeirra og tvær milljónir eru á vergangi í heimalandinu. Nígeríski herinn hefur fengið liðsstyrk frá Tsjad, Kamerún og Níger í baráttunni gegn Boko Haram og hafa samtökin að undanförnu gert æ fleiri árásir í Tsjad.

Í maí voru til að mynda sex myrtir, þar af fjórir erindrekar ríkisstjórnarinnar, á eyju á Tsjad-vatni. Nígerski herinn greindi svo frá því í gær að tíu hryðjuverkamenn hefðu verið drepnir  eftir að Boko Haram réðist á herstöð í suðvesturhluta landsins. „Aðfaranótt föstudags réðust hryðjuverkasamtökin Boko Haram á herstöðina í Baroua,“ sagði í tilkynningu frá varnarmálaráðuneytinu. Einn nígerskur hermaður fórst og tveir særðust.

Hermaður og björgunarliði virða fyrir sér bifreið Gandapur, sem ráðist var á í gær. Gandapur lést og hinir fjórir í bílnum særðustVísir/Getty

Enn ein árásin á frambjóðendur í Pakistan kostaði frambjóðanda réttlætishreyfingarinnar líf sitt

I kramullah Gandapur, frambjóðandi Pakistönsku réttlætishreyfingarinnar (PTI), fórst og fjórir særðust þegar sjálfsmorðsárás var gerð á bifreið hans í Khyber Pakhtunkhwa-fylki í gær. Gandapur hafði verið í framboði fyrir PTI til borgarráðs í Dera Ismail Khan og var á leið af fundi þegar árásin var gerð. Undanfarið hafði Gandapur fengið reglulegar líflátshótanir og höfðu ellefu lögreglumenn gætt hans. 

PTI er flokkur Imrans Khan, sem áður var fyrirliði landsliðs Pakistans í krikket, og mælist flokkurinn með álíka mikið fylgi og ríkisstjórnarflokkurinn Múslimabandalag Pakistans (PML-N) í aðdraganda þingkosninganna sem fram fara á miðvikudaginn. Tíðar árásir hafa verið gerðar undanfarnar vikur á frambjóðendur og kosningafundi og er Gandapur ekki fyrsti frambjóðandinn sem er myrtur. Sjötíu fórust í árás á kosningafund Lýðflokks Balúkistan fyrr í mánuðinum. 

Á meðal þeirra var Siraj Raisani, frambjóðandi flokksins. Þá var Haroon Bilour, frambjóðandi ANP, myrtur skömmu fyrr. Á annað hundrað voru svo myrt í einni stærstu árás pakistanskrar sögu um miðjan mánuð. Hryðjuverkamenn tengdir alKaída, Íslamska ríkinu og Talíbönum hafa gert vart við sig í kosningabaráttunni og vekja árásirnar óhug. Enn situr fast í minni Pakistana að 158 fórust í árásum í aðdraganda síðustu kosninga, árið 2013.



Ellefu leigubílstjórar myrtir

Ellefu leigubílstjórar frá Gauteng-fylki voru á leið sinni heim til Jóhannesarborgar í fyrrinótt þegar skotið var á smárútuna sem þeir ferðuðust á og þeir myrtir. Þeir voru á leið heim úr jarðarför kollega síns í Kwa-Zulu Natal. Fjórir aðrir leigubílstjórar særðust í árásinni.

Óljóst er hver ber ábyrgð á árásinni en BBC greinir frá því að erjur leigubílstjóra í Suður-Afríku hafi áður leitt til ofbeldis. Smárúturnar sem leigubílstjórarnir keyra eru vinsælasti ferðamáti Suður-Afríku. „Setið var fyrir bifreiðinni. Ellefu fórust og fjórir særðust alvarlega. Það hefur verið mikið um ofbeldi á milli leigubílstjóra á þessu svæði en við erum enn að reyna að komast að því hverjir báru ábyrgð á árásinni,“ sagði Jay Naicker, upplýsingafulltrúi lögreglu, við fjölmiðla.

Sagði hann árásina jafnframt hafa verið gerða á milli bæjanna Colenso og Weenen. Vika er síðan leigubílstjóri var myrtur í bíl sínum í ríkinu og voru tveir aðrir á sama tíma myrtir á meðan þeir nutu lögreglufylgdar. Í maí voru svo tíu myrtir vegna erja leigubílstjóra í Höfðaborg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×