Skoðun

Byltingin er staðreynd

Þóra Kristín Þórsdóttir skrifar
Þegar starfsstétt er sagt að nú þurfi framvegis að læra tveimur árum lengur í háskóla til að fá starfsleyfi er eðlilegt að stéttin geri kröfur um hærri laun. Nú hefur sú þróun orðið á undanförnum tveimur áratugum að búið er að meistaravæða flestallar háskólamenntaðar kvennastéttir hins opinbera, sbr. kennara, hjúkrunarfræðinga og ljósmæður, án þess að kjörin hafi batnað til samræmis. Á síðasta áratug hafa aðilar vinnumarkaðarins svo komið sér saman um að hér þurfi að „skapast sátt“, og binda vonir við að hér verði haldið í einhvers konar SALEK-samkomulag – þar sem öll stéttarfélög semji um sams konar prósentuhækkanir. Það þýðir að núverandi misrétti á að innmúrast í kerfið, þar með talið kynbundið misrétti – þ.e.a.s. það að hefðbundnar karlastéttir, sbr. verkfræðingar, lögfræðingar, prestar og læknar, eru með mun hærri laun en kvennastéttirnar.

Við erum nú í öldu femínískra byltinga, sbr. #metoo og #höfumhátt. Konur eru fullar af eldmóði og bera ekki lengur virðingu fyrir hefðbundinni stöðu sinni, hvort sem hún felst í að sætta sig við áreitni á vinnustað eða bera virðingu fyrir karllægu samkomulagi aðila vinnumarkaðarins. Hátt í þrjátíu ljósmæður hafa nú sagt upp störfum, margar deildir á spítölum landsins geta ekki haldið fullri virkni vegna skorts á hjúkrunarfræðingum og á næstunni horfum við fram á alvarlegan kennaraskort í skólakerfinu.

Málið er ofureinfalt. Konur eru ekki tilbúnar til að sætta sig lengur við lægri laun fyrir að velja sér hefðbundið kvennastarf. Það þarf að setja upp nýtt líkan þar sem laun hverrar kvennastéttar eru miðuð við karlastétt með sambærilegar menntunarkröfur og álag annars staðar í kerfinu, auk vaktaálags þegar það á við. Það er ekki fyrr en að þessu loknu sem hægt er að skapa sátt á vinnumarkaði. Og á þessu þurfa samningsaðilar að átta sig strax nú því að börn koma þegar þau koma, hvort sem fæðingardeildirnar eru fullkvennaðar eða ekki. Öryggi þeirra og mæðra þeirra þarf að tryggja.

Höfundur er forynja Kvennahreyfingarinnar




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×