Viðskipti innlent

Hvalur seldi birgðir af hval fyrir 860 milljónir

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Kristján Loftsson, forstjóri Hvals.
Kristján Loftsson, forstjóri Hvals. VÍSIR/ANTON
Hvalur seldi hvalaafurðir fyrir 863 milljónir króna á síðasta rekstrarári félagsins sem lauk í september í fyrra. Salan dróst saman um 31 prósent frá fyrra rekstrarári þegar hún nam um 1.247 milljónum króna, að því er fram kemur í ársreikningi Hvals.

Félagið átti hvalkjötsbirgðir að virði 1.880 milljónir króna í lok september í fyrra en til samanburðar voru birgðirnar metnar á 2.560 milljónir í lok september árið 2016.

Hvalur hagnaðist um tæpa 1,5 milljarða króna frá tímabilinu 1. október 2016 til 30. september 2017 og dróst hagnaðurinn saman um ríflega 515 milljónir á milli rekstrarára. Tekjur félagsins námu ríflega 2,8 milljörðum króna á tímabilinu og munaði þar mestu um tekjur af eignarhlutum þess í HB Granda, Hampiðjunni og Nýherja sem námu samanlagt allt að 1,6 milljörðum.

Rekstrargjöld Hvals voru tæpir 1,7 milljarðar á rekstrarárinu en kostnaður vegna reksturs hvalveiðiskipa og hvalstöðvarinnar í Hvalfirði sem og útflutningstengdur kostnaður var um 640 milljónir.

Hvalur átti eignir upp á 19,6 milljarða króna í lok september 2017. Skuldirnar námu á sama tíma 2,3 milljörðum og var eigið fé félagsins 17,3 milljarðar.

Fiskveiðahlutafélagið Venus, sem er í eigu Kristjáns Loftssonar, forstjóra Hvals, Birnu Loftsdóttur og Sigríðar Vilhjálmsdóttur, er stærsti hluthafi Hvals en félagið átti 39,5 prósenta hlut í lok september í fyrra. Alls eru hluthafar Hvals 113 talsins.

Stjórn félagsins lagði í maí síðastliðnum til að greiddur yrði út arður upp á einn milljarð króna til hluthafa.

Hvalur gerir út tvö hvalveiðiskip í sumar en skipin hafa heimild til þess að veiða útgefinn kvóta upp á 161 langreyði auk 20 prósenta af ónýttum kvóta síðasta árs. Síðast voru stundaðar veiðar á langreyði sumarið 2015 en þá veiddust 155 langreyðar.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×