Handbolti

Björgvin Páll: Með þennan stuðning á enginn séns í okkur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Laugardalshöll skrifar
Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. vísir/anton

Björgvin Páll Gústavsson átti nokkrar mikilvægar vörslur í þriggja marka sigri Íslands á Litháum í seinni umspilsleiknum um laust sæti á HM í Laugardalshöll í kvöld. Honum leið að vonum vel í leikslok.

„Ég gæti ekki verið glaðari. Þetta er það besta sem maður gerir á hverju ári, að koma liðinu á stórmót. Fyrir framan fulla stúku á svona mómenti þar sem allt snýst um fótbolta er náttúrulega sturlað,“ sagði Björgvin í leikslok.

„Maður fattaði það ekki í janúar hvað það var geggjað að komast á svona mót. Við mætum virkilega góðum andstæðing sem að var mjög erfitt.“

Leikurinn í dag var erfiður og fékk liðið á sig óþarflega mörg auðveld mörk, þó það skrifist kannski ekki bara á markmanninn.

„Jújú, þú mátt alveg kenna mér um. En það er hárrétt, þeir eru með virkilega hæfileikaríka menn fyrir utan. Miðjumaðurinn þeirra var okkur mjög erfiður. Hann er í heimsklassa, skemmtilegur handboltamaður sem henntar okkur mjög illa. Við erum á síðustu dropunum undir restina, þetta er orðið langt verkefni og erfitt á móti andstæðing sem menn keppast um að vanmeta í fjölmiðlum.“

„Við mætum þeim á mikilvægum mómentum fyrir þá, þeir voru niðurbrotnir því þeir ætluðu sér á HM. En það er virkilega erfitt að tapa fyrir okkur í Höllinni, ég held ég hafi aldrei tapað mótsleik hér og við byrjum ekki á því í dag.“

„Með þennan stuðning og svo hitnar Guðjón Valur, þá á ekkert lið séns í okkur.“

Íslenska liðið er orðinn fastagestur á stórmótum í handbolta en strákarnir þreytast aldrei á að fara þangað.

„Það er heiður að fá að vera með á stórmótum. Alls ekki sjálfgefið. Við erum þakklátir fyrir það. Nú getum við farið að bóka flug til Rússlands og svo mæta allir í janúar með okkur til Þýskalands og Danmerkur.“

Talandi um Rússland, ætlar Bjöggi að eyða sumarfríinu þar?

„Nei, ekki hjá mér. Nú er búinn að vera handbolti á heilanum í ár og loks komið að fótbolta. Tek einn dag í að hugsa um ekki neitt og svo kemur fótbolti frá og með næsta degi og ég fylgist með strákunum okkar í fótboltalandsliðinu,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.