Skoðun

Verknám – Nú þarf átak

Þorbjörn Guðmundsson skrifar
Það hefur ríkt mikill samhljómur um það á Íslandi á undanförnum árum að það þurfi að fjölga nemendum í verk- og tæknigreinum. Hver ríkisstjórnin á fætur annarri tekur undir þetta markmið og vill stefna að því.

Greinar eru skrifaðar í blöð og ræður fluttar. Umræðan verður oft mikil þegar fregnir berast af miklu brottfalli nemenda úr framhaldsskólum. Þá er jafnan spurt hvort ekki þurfi að auka fjölbreytni í námsframboði og böndin berast að verknámi.

Allt að 70% fækkun

Staðreyndin er hins vegar sú að í flestum greinum verknáms hefur nemendum fækkað mjög á undanförnum árum. Iðan fræðslusetur heldur utan um skráningu á fjölda sveinsprófa í 36 iðngreinum. Tölurnar sýna að árið 2008 lauk 681 einstaklingur sveinsprófi. Árið 2016 var þessi tala komin niður í 448. Það er 35% fækkun.

Í mannvirkjagerð er ástandið hroðalegt. Árið 2008 luku 293 einstaklingar sveinsprófi í húsasmíði. Árið 2016 luku 92 slíku prófi. Þetta er fækkun um hartnær 70%. Málurum, múrurum og pípurum fækkar líka.

Þörfin vex

Þörfin á menntuðu fólki í tæknigreinum vex í takti við fólksfjölgun. Þörf samfélagsins til þess að innleiða nýja tækni á öllum sviðum er knýjandi. Hvað er til ráða?

Verk-og tækninám gefur góða tekjumöguleika, er skemmtilegt og hentar mörgum. Á því má byggja margs konar frekara nám og þekkingin og hæfnin sem fólk aflar sér er mjög nytsamleg. Það er vit í verknámi.

Rannsóknir í nágrannalöndum sýna að viðhorfsbreyting þarf að eiga sér stað heima fyrir: Viðhorf foreldra til náms ræður mestu um það hvort ungt fólk velur verknám eða ekki. Í öðru sæti eru kynni unga fólksins af viðkomandi iðngreinum.

Efna þarf til átaks við að kynna verk- og tækninám.

Við hjá Samiðn – Sambandi iðnfélaga – höfum boðið menntamálaráðherra í heimsókn til okkar á fund 18. maí. Hún hefur þegið boðið. Allir eru sammála um markmiðið. Nú þarf að framkvæma.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samiðnar




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×