Skoðun

Hver er ábyrgð ljósmæðra?

I am just one of many many thousands of midwives,
who are devoted to saving lives gently
-Robin Lim
Ljósmæður eru með hæstu menntunarkröfur innan BHM að prófessorum undanskildum. Námið tekur sex ár á háskólastigi, fjögur ár í hjúkrunarfræði og tvö ár í ljósmóðurfræði.

Ljósmæðrastarfið er að okkar mati fallegasta og mest gefandi starf sem hægt er að vinna við en það er ekki þar með sagt að starfið sé alltaf dans á rósum. Það þekkjum við sem höfum starfað á fæðingardeildum hér á landi og erlendis. Fæðingar eru eðlilegt ferli og við ljósmæður gerum allt sem við getum til að stuðla að sem bestri upplifun fyrir mæður, maka og börn og viðhalda því eðlilega ferli sem fæðingin er.

Ljósmæður hafa talað um það í kjarabaráttu sinni að starfinu fylgi mikil ábyrgð og að álagið sé mikið. En hvað felst í þessum orðum?


Ábyrgð í starfi

Samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnun WHO deyja 830 konur á degi hverjum á heimsvísu af kvillum tengdum meðgöngu og fæðingu. Kvillum sem mögulega hefði verið hægt að koma í veg fyrir með vel menntuðu starfsfólki og réttum viðbrögðum. Það jafngildir því að þrjár af stærstu farþegaþotum Icelandair, fullar af þunguðum konum myndu farast á hverjum einasta degi.

Hér á landi er mæðradauði með því lægsta sem þekkist í heiminum og þykir það fréttnæmt ef kona deyr af barnsförum á Íslandi. Að mörgu leyti er það vel menntuðu heilbrigðisstarfsfólki og öflugu heilbrigðiskerfi að þakka.

Á Fæðingarvakt Landspítalans starfa að meðaltali sjö ljósmæður á hverri vakt. Reynt er að hafa mannaða bakvakt á nóttunni frá mánudegi til föstudags, til þess að geta mætt óvæntum álagstoppum. Á dagvöktum á virkum dögum starfa tveir læknar á deildinni en fleiri eru að sinna öðrum deildum í húsinu. Á kvöldin, nóttunni og um helgar eru tveir læknar á vakt, einn deildarlæknir og einn sérfræðingur og svo er einn sérfræðingur á bakvakt heima. Saman sjá þeir um fæðingardeild, sængurlegudeild og kvennadeild. Þetta þýðir að læknir er ekki alltaf til staðar á deildinni þegar eitthvað kemur upp á sem þýðir að það tekur alltaf einhvern tíma fyrir lækni að koma þegar hann er kallaður til við bráðaaðstæður. Einnig geta læknar verið uppteknir við að sinna öðrum skjólstæðingum og ljósmæður eru því fyrsti viðbragðsaðili þegar eitthvað bregður út af í fæðingu og eftir fæðinguna.

Það er margt sem getur ógnað heilsu móður og barns í fæðingu og er það hlutverk ljósmóðurinnar að bera kennsl á frávikin og það helst áður en skaði hefur hlotist af. Í náminu er kennt meðal annars umönnun kvenna með ýmsa meðgöngukvilla eins og meðgöngusykursýki, háþrýsting og meðgöngueitrun. Einnig eru kennd viðbrögð í ýmsum bráðatilvikum í fæðingu eins og yfirvofandi súrefnisskorti barns, axlarklemmu, blæðingu móður eftir fæðingu og endurlífgun nýbura svo eitthvað sé nefnt. Ljósmæður fara svo reglulega á námskeið til að rifja upp viðbrögð við þessum bráðatilvikum ásamt læknum.

En þó allt sé með felldu í fæðingunni er margt sem þarf að huga að og eftirlit með móður, ófæddu barni og nýburanum þarf að vera náið. Þó margir sjái kannski helsta hlutverk ljósmóður vera það að styðja, hvetja og upplýsa foreldra í gegnum fæðingarferlið, þá er það bara toppurinn á ísjakanum. Þegar kona kemur inn í fæðingu er margt sem getur gerst og með vaxandi tíðni meðgöngukvilla eykst hættan á að eitthvað komi upp á í fæðingunni.

Fylgjast þarf með fóstursíritun svo eitthvað sé nefnt og bregðast fljótt við breytingum þar. Ástand móður getur kallað eftir þéttum mælingum á lífsmörkum og tíðum blóðprufum. Þá þarf að fylgjast náið með ákveðnum vísbendingum um versnandi ástand og bregðast rétt og fljótt við. Þá fer hágæsla mjög veikra mæðra oft fram á fæðingardeild. Meta þarf reglulega framgang fæðingarinnar og hvenær nauðsynlegt er að grípa inn í, stundum með aðstoð læknis eða með þeim úrræðum sem ljósmæður hafa. Ljósmæður sjá um umönnun kvenna í og eftir fæðingu, aðstoða við brjóstagjöf, eftirlit með nýburum, sjá um að sauma konur eftir fæðingu, vakta konur á vöknun eftir keisara og huga að fjölskyldunni í heild sinni.

Í vinnu okkar við fæðingarhjálp höfum við oft staðið frammi fyrir erfiðum verkefnum og lent í aðstæðum sem okkur langar hreinlega ekki að vera í. Aðstæðum þar sem við erum með líf barns og móður í höndunum. En við vitum nákvæmlega hvað við eigum að gera í þessum bráðatilvikum og við gerum allt sem okkur hefur verið kennt til að bregðast við. En þetta er ekki auðvelt og oftar en ekki sitja viðburðir vaktarinnar í kollinum þegar heim er komið og hafa ófá tár fallið yfir þeim atburðum sem fylgja starfinu. Spurningin sem hefur komið upp í hugann er: „Afhverju valdi ég starf þar sem líf ófædds eða nýfædds barns er í mínum höndum? Eða líf verðandi eða nýbakaðrar móður?“ Ábyrgðin er gríðarleg.

Orðið ljósmóðir er fallegt orð, það hafa Íslendingar verið sammála um. Starfið er líka fallegt. Það er sennilega ekkert fallegra en að taka á móti nýju lífi í þennan heim og það er það sem gerir okkur ljósmæður svo stoltar og ánægðar með starfið okkar. Starfinu fylgir líka sorg og ótti. Óttinn við að vera skyndilega staddur í verstu hugsanlegu aðstæðum. Það er samvinna okkar ljósmæðra og fæðingarlækna að koma í veg fyrir slíkar aðstæður og halda mæðra- og ungbarnadauða í lágmarki á heimsvísu.


Álag í starfi

Eins og fram hefur komið í kjarabaráttu okkar ljósmæðra þá starfa íslenskar ljósmæður sem sinna fæðingarþjónustu á þrískiptum vöktum. 100% vinna þýðir 40 klukkustunda vinnuvika. Það hefur einnig komið fram að erfitt er fyrir vaktavinnufólk að skila af sér 100% vinnu, það gæfi lítið svigrúm til að jafna sig eftir dægursveiflur vaktavinnunnar og líkurnar á að starfsmaður brenni út í starfi eru miklar. Á hinum Norðurlöndunum er algengt að fólk sem vinnur slíka vaktavinnu vinni styttri vinnuviku, t.d. 32 klukkustundir sem samsvarar 80% starfi á Íslandi.

Þrátt fyrir að skila færri vinnustundum en hinum hefðbundnu 40 klukkustundum á viku, þá er álagið á ljósmæðrum mikið. Vinnan er þess eðlis að stundum gefst ekki tími fyrir matartíma á vöktunum og stundum er erfitt að komast á klósettið þegar ástandið er þannig að deildin er full og skjólstæðingar þurfa stöðuga yfirsetu. Það er ekki auðvelt að bregðast við bráðatilfellum þegar maginn er tómur og þvagblaðran er full.

Oft kemur það upp að erfitt er að manna deildina. Það getur verið vegna veikinda starfsfólks, sumarleyfa eða hreinlega manneklu og þá eykst álagið á þeim sem fyrir eru. Starfsfólk er orðið vant því að fá símtal á frídögum þar sem það er beðið um að  mæta í vinnu. Að taka slíkar aukavaktir hækkar jú launin, en á maður að þurfa að vinna svona til þess að ná endum saman?

Er ekki skynsamlegra að halda í þær ljósmæður sem eru til staðar og hvetja fleiri til að fara í námið? Væri þá ekki hægt að auka mönnun á deildum?

Hverju myndi það skila? Jú, úthvíldu,ánægðu og hæfara starfsfólki. Möguleikanum að leysa hvor aðra af á þungum vöktum þegar deildin er full. Meiri starfsánægju.

Hvað þarf að gerast til að þetta geti orðið að veruleika? Svarið er einfalt, borgið ljósmæðrum laun í samræmi við ábyrgð og menntun. Ef ekki er hægt að stytta vinnuviku okkar sem vinnum vaktavinnu, gerið okkur þá kleift að lifa af 80% vinnu á mannsæmandi launum, án þess að þurfa að taka aukavaktir á fríhelgum.

Þó hugmynd vissra aðila um ljósmæður virðist vera sú að við séum eingöngu yfirsetukonur sem höldum í hendi fæðandi konu og þurrkum svitann af enni hennar á meðan við aðstoðum fæðingarlæknana við þeirra störf, þá er það ekki raunveruleikinn. Okkar raunveruleiki er eins og lýst var hér að ofan.

Nú hafa um 20 ljósmæður sagt upp störfum sínum á LSH. Verður hægt að tryggja öryggi kvenna í fæðingu ef ekki næst að semja við ljósmæður um kjör þeirra? Verður fæðingarþjónusta á Íslandi algerlega óaðgengileg?

Kæra ríkisstjórn, sýnið okkur ljósmæðrum virðingu og metið okkur að verðleikum.


Höfundar eru ljósmæður og starfa á fæðingardeildumAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Skoðun

Þeir!

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.