Umfjöllun og viðtöl: Valur - Haukar 20-22 | Frábær endurkoma Hauka

Stefán Árni Pálsson skrifar
Andi Séra Friðriks svífur ávallt yfir vötnunum þegar Valur og Haukar eigast við.
Andi Séra Friðriks svífur ávallt yfir vötnunum þegar Valur og Haukar eigast við. Vísir/vilhelm
Haukar snéru við töpuðum leik gegn Val á Hlíðarenda í dag og unnu tveggja marka sigur, 22-20. Þeir eru komnir í 1-0 og geta sópað Íslandsmeisturunum í frí með sigri á mánudagskvöldið.

Haukarnir komu sterkir til baka í síðari hálfleiknum eftir að hafa verið fimm mörkum undir í hálfleik og lögðu grunninn að þessum sterka sigri.



Af hverju unnu Haukar ?


Þeir voru einfaldlega grimmari í síðari hálfleik og komu til baka. Leikmenn Hauka sýndu mikinn karakter í kvöld og þessi sigur gæti skilað þeim langt í þessari úrslitakeppni, svo einfalt er það. Eftir að hafa verið fimm mörkum undir í hálfleik og alls ekki náð sér á strik í fyrri hálfleik sýndi liðið sitt rétta andlit í seinni hálfleik. Vörn og markvarsla fóru í gang hjá þeim og sóknarleikurinn var mun skárri í seinni hálfleiknum.

Hverjir stóðu upp úr?

Hákon Daði Styrmisson var frábær í liði Hauka með 8 mörk og gátu Haukarnir alltaf leitað til hans. Atli Már Báruson var einnig sérstaklega góður í liði Hauka og skoraði mörk þegar Haukunum sárlega vantaði mörk. Hann stjórnaði leik Hauka mjög vel og á stóran hluta í þessum sigri.

Hvað gekk illa?

Valsmenn skora aðeins sjö mörk í seinni hálfleik. Það er í raun alveg skelfilegt og þurfa þeir nauðsynlega að skoða sinn sóknarleik. Sóknarleikur Hauka í fyrri hálfleik var síðan einnig skelfilegur. Bæði lið þurfa að finna lausnir fyrir næsta leik.  

Hvað er framundan?

Leikur tvö er á mánudagskvöldið og þá getur þetta einvígi klárast, nái Haukar að vinna.  

Gunnar: Erum engir vitleysingar„Við fórum bara aðeins yfir málin í hálfleiknum og ég var bara hrikalega óánægður með fyrri hálfleikinn hjá okkur ,“ segir Gunnar Magnússon, þjálfari Haukar, eftir sigurinn.

„Við vorum bara rosalega staðir og engan veginn tilbúnir í þetta. Eins og ég er óánægður með fyrri hálfleikinn þá er ég ótrúlega ánægður með drengina í seinni hálfleik og karakterinn sem við sýnum. Stuðningurinn sem við fengum frá stuðningsmönnum okkar í seinni hálfleik var einnig geggjaður.“

Gunnar segist vera mjög ánægður með að hafa náð í heimavallaréttinn.

„Það má ekki gleyma því að Valur er með stórkostlegt lið og þetta er mjög jöfn lið. Við erum engir vitleysingar og vitum alveg hvað bíður okkar á mánudaginn. Ef við ætlum að vinna Val, þá verðum við að spila frábærlega og ég hugsa að við þurfum að spila betur en í dag“

Snorri: Skil ekki af hverju þeir breyttu dómnum„Ég verð að fá að skoða seinni hálfleikinn á myndbandi, en við gerum allt of mörg mistök,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, eftir tapið.

„Bjöggi byrjar að verja og eitt leiðir af öðru og við hleypum þeim bara inn í leikinn. Haukaliðið var bara gott í kvöld og áttu sigurinn skilið.“

Snorri segir að liðið hafi verið frábært í fyrri hálfleik.

„Við vissum alveg að það var samt ekki nóg og töluðum um að halda áfram í hálfleiknum. Svona er bara úrslitakeppnin og við erum bara 1-0 undir.“

Umdeilt atvik átti sér stað undir lok leiksins þegar dómararnir snéru við dómi og gáfu Haukum víti.

„Þeir bara breyttu dómnum. Ég sá þetta kannski ekki nægilega vel en skil reyndar ekki af hverju þeir breyttu dómnum,“ segir Snorri og bætir við að Valsmenn ætli að rífa sig í gang og vinna næsta leik. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira