Umfjöllun og viðtöl: ÍR - ÍBV 26-30 | Fjögur rauð er ÍBV sópaði ÍR í sumarfrí

Svava Kristín Grétarsdóttir skrifar
vísir/anton

ÍBV vann fjögurra marka sigur á ÍR, 30-26, í öðrum leik liðanna í dag. Mikil barátta einkenndi leikinn en ÍBV er komið í undanúrslit og ÍR er farið í sumarfrí.

Bæði lið voru mætt til leiks frá fyrstu mínútu. Liðin keyrðu á hraðri miðju sem skilaði auðveldum mörkum í upphafi leiks og staðan eftir 10 mínútna leik, 6-8 fyrir gestina. 

Á 15. mínútu dró til tíðinda, ÍR fékk vítakast sem Sturla Ásgeirsson tók. Skot hans fór beint í andlitið á Aroni Rafni Eðvarðssyni, markmanni ÍBV. Eftir smá umhugsun tóku dómarar leiksins þá ákvörðun að gefa Sturlu beint rautt spjald. 

ÍR kom til baka eftir þetta atvik og minnkaði forystu Eyjamanna niður í eitt mark, 11-12, lengra komust heimamenn ekki í fyrri hálfleik því ÍBV jók aftur forystuna og staðan þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks 12-16. 

Á fyrstu 10 mínútum síðari hálfleiks var ágætis handbolti spilaður. ÍBV spilaði flotta vörn sem vantaði aðeins uppá hjá þeim í fyrri hálfleik en þegar vörnin þéttist þá náðu Eyjamenn góðu forskoti og voru komnir með 7 marka forskot á 40. mínútu, 15-22. Annað atvik átti sér þá stað þegar Elliði Snær Viðarsson braut illa á Elíasi Bóassyni og hlaut beint rautt spjald fyrir vikið. Eftir þetta brot leystist leikurinn upp, ÍR mætti ÍBV af mikilli hörku í vörninni og baráttan í leiknum var ólýsanleg. 

Halldór Logi Árnason, leikmaður ÍR, fékk beint rautt spjald á 45. mínútu og liðsfélagi hans, Þrándur Gíslason Roth, hlaut sama dóm í næstu sókn ÍBV. Það var erfitt fyrir ÍR að snúa leiknum sér í hag eftir þetta. ÍBV náði þegar mest lét 8 marka forystu en leiknum lauk með fjögurra marka sigri ÍBV 26-30, sem nú eru komnir í undanúrslitin.

Kári Kristján Kristjánsson var atkvæðamestur í liði ÍBV með 9 mörk, þar af 4 af vítapunktinum. Theodór Sigurbjörnsson og Agnar Smári Jónsson á eftir honum með 5 mörk. 
Markahæsti leikmaður ÍR var Bergvin Þór Gíslason með 9 mörk og Kristján Orri Jóhannsson þar á eftir með 6 mörk. 

Af hverju vann ÍBV
Fyrir utan það að ÍR hafi misst nánast allt byrjunarliðið sitt útaf með rautt spjald eða í meiðsli þá er ÍBV bara með betra lið sem erfitt er að vinna þegar lykilmenn vantar hjá andstæðingnum. 

Hvað gekk illa? 
Leikmönnum gekk illa að halda haus og spila almennan handbolta. Fyrir utan fína kafla í fyrri hálfleik og upphafi síðari þá var þetta heilt yfir slakur handbolti. Það var augljóst að bæði lið ætluðu sér að mæta að krafti og var línan greinilega sett eftir fyrri leik liðanna í Vestmannaeyjum á föstudaginn var.  

Hverjir stóðu uppúr? 
Kári Kristján Kristjánsson var frábær í liði ÍBV og vörnin í heild sinni flott í dag. Bergvin Þór Gíslason var bestur í liði ÍR og þá var Þrándur Gíslason Roth einnig góður í dag. 

Hvað er framundan? 
Framundan hjá ÍBV eru undanúrslit Olís-deildarinnar þar sem þeir mæta Val eða Haukum. Svo á laugardaginn 21. apríl er leikur gegn Potaissa Turda frá Rúm­en­íu í undanúr­slit­um Áskor­enda­keppnarinnar. 
 

Bjarni: Sum lið hafa þá taktík að boxa menn
Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, var nokkuð ánægður með sitt lið að leik loknum en vandaði leikmönnum ÍBV ekki kveðjurnar. 

„Ég var rosalega ánægður með mitt lið í fyrri hálfleik. Fyrstu 20 mínúturnar spiluðum við góðan leik. Við vorum oft klaufar í sókninni samt þar sem við töpuðum boltum og það skilaði þeim auðveldum hraðaupphlaupum. Varnarlega vorum við að gera mistök líka og svona gott lið refsar fyrir svoleiðis. Það var bara þeirra forysta í hálfleik sem skóp þennann sigur þeirra í dag.“ sagði Bjarni en ÍBV leiddi með fjórum mörkum í hálfleik.

„Svo í síðari hálfleik þá missum við bara hausinn. Brotið á Elíasi (Bóassyni) kveikir svolítið í þessum leik. Sturla (Ásgeirsson) missum við nátturlega strax í byrjun leiks eftir að hann skaut í andlitið á markmanninum. Svo þegar við missum Ella í byrjun seinni hálfleiks eftir frekar ljótt brot, þá fór bara allt til fjandans.“ 

„Leikurinn í dag var ekkert grófur hann leystist bara upp eftir brotið á Elíasi. Það koma tvö ljót brot hjá mínum mönnum og ég sætti mig ekki við þau brot. Ég sem þjálfari myndi aldrei sætta mig við það að leikmenn myndu brjóta á leikmönnum viljandi. Enda hefur það aldrei sést hjá mínu liði.“ sagði Bjarni sem vildi ekki meina að dómararnir hafi misst tökin á leiknum, heldur hafi þeir gert vel og verið samkvæmir sjálfum sér. 

„Dómararnir dæma leikinn en stjórna ekki ákvörðunum leikmanna. Þegar leikmenn leyfa sér svona ljót brot leik eftir leik og slasa leikmenn leik eftir leik þá svara menn fyrir sig. Þá fer allt til fjandans eins og gerðist í dag. Við viljum alls ekki að handbolti sé spilaður svona. En sum lið hafa svona taktík að boxa menn út úr leiknum til að komast langt.“ 

Bjarni var ósáttur með brotið á Sveini Andra í síðasta leik, brot sem varð til þess að Sveinn gat ekki spilað með ÍR í dag. Bjarni lét stór orð falla um leikmenn ÍBV eftir síðasta leik og hélt sig við þau orð í dag. 

„Þetta var hrikalega ljótt brot á Sveini Andra, hann er einn af okkar bestu leikmönnum í vörn og sókn og þeir augljóslega tóku hann út úr einvíginu og hann spilaði ekki í dag, svo þetta heppnaðist vel hjá þeim. 

ÍR er komið í sumarfrí og segist Bjarni ganga sáttur frá þessu tímabili og sé spenntur fyrir því næsta.

„Ég er ánægður með veturinn og hvernig við tókum á hlutum sem komu uppá. Það hefði verið gott að hafa Björgvin (Þór Hólmgeirsson) og Aron (Örn Ægisson) allt tímabilið en þeir komu inn undir lokin og hjálpuðu okkur að narta aðeins í þetta. Við bara bætum við og tökum eitt skref í einu.“
 


Arnar: Þetta var hætturlegt á köflum
„Mér fannst þetta ekki fallegt ef ég á að segja alveg eins og er.“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, um leik dagsins.  

„Þeir reyndu að stuða okkur útúr leiknum með skíta leik. Þetta var hættulegt á köflum en við héldum haus og kláruðum þetta vel.“

ÍR missti 4 leikmenn úr leiknum, 3 með rautt spjald og sá fjórði fór útaf vegna meiðsla. Það hafði ekki mikil áhrif á Arnar og lofaði hann dómurum leiksins frammistöðuna í dag. 

„Það hefur auðvitað áhrif á þá að missa menn útaf en veistu það mér er alveg nákvæmlega sama. 
Brotið hjá Elliða var klaufalegt og klárlega rautt spjald. Það á að dæma rautt á þetta og þetta er línan sem við viljum sjá í þessu. Dómararnir dæmdu þennann leik mjög vel, þar sem var verið að vernda leikmenn ekki hafa þetta í einhverju djöfulsins bulli og vitleysu.“

Var ekki vitað mál að þetta yrði baráttuleikur eftir síðasta leik?

„Jú, og þess vegna var mjög gott að sjá Anton og Svavar dæma þennann leik.“ 

ÍBV er nú komið í undanúrslit Olís-deildarinnar. Arnar segir það ekki skipta máli hvort þeir mæti Val eða Haukum, verkefnið verði alltaf erfitt. 

„Þetta eru tvö frábær lið og í raun og vera skiptir engu máli hvort við fáum. þetta verður 100% barátta, mikið og erfitt verkefni.“
 

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.