Erlent

Írska þingið samþykkti þjóðaratkvæðagreiðslu þann 25. maí

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Frá mótmælum í Dublin.
Frá mótmælum í Dublin. Vísir/Getty
Írska þingið samþykkti í dag að halda þjóðaratkvæðagreiðslu þann 25. maí næstkomandi um umdeilda fóstureyðingalöggjöf landsins. Eins og staðan er á Írlandi í dag eru fóstureyðingar með öllu bannaðar nema í undantekningartilfellum eins og þegar líf móðurinnar er í bráðri hættu. Þann 25. maí verður kannað hvort írska þjóðin vilji breyta þessum ströngu lögum.

40 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu um að halda þjóðaratkvæðisgreiðslu en tíu greiddu atkvæði gegn því, samkvæmt frétt BBC. Á þriðjudag samþykkti ríkisstjórnin að meginefni lagabreytingarinnar myndi taka gildi ef meirihluti þjóðarinnar kýs með breytingu á fóstureyðingarlöggjöfinni. 

Um er að ræða viðauka við stjórnarskrá Íra, sem settur var árið 1983 og tók þá af öll tvímæli um að fóstureyðingar væru bannaðar í landinu. Ekki er fallist á fóstureyðingar, þegar barnið hefur komið undir eftir nauðgun, sifjaspell eða er með alvarlegan fósturgalla.

Gætu fengið 14 ára dóm

Forsætisráðherrann Leo Varadkar er einn þeirra sem hefur barist fyrir því að bannið við fóstureyðingum verði afnumið úr stjórnarskránni sem gefur fóstrum sama rétt til lífs og konunum sem ganga með þau. Meirihluta atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu þarf til að breyta stjórnarskrá Írlands.

Andstaða við fóstureyðingar er rótgróin á Írlandi og hafa verið hávær mótmæli á þessu ári vegna yfirvofandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Kona sem fer í ólöglega fóstureyðingu á Írlandi getur átt yfir höfði sér 14 ára fangelsisvist eins og staðan er núna. Þúsundir írskra kvenna fara í fóstureyðingu á hverju ári en þurfa þá að fara í hana utan heimalandsins.

Heilbrigðisráðherra landsins smíðar nú frumvarp sem myndi heimila konum að gangast undir fóstureyðingu fram að tólftu viku meðgöngu og í undantekningartilfellum eftir það.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×