Innlent

Rannsakar mannshvörf upp á eigin spýtur

Guðný Hrönn skrifar
Bjarki Hólmgeir starfar sem gröfumaður hjá Ístak og er bassaleikari í hljómsveitinni Króm. Í frítíma sínum rannsakar hann mannshvörf.
Bjarki Hólmgeir starfar sem gröfumaður hjá Ístak og er bassaleikari í hljómsveitinni Króm. Í frítíma sínum rannsakar hann mannshvörf. FRÉTTABLAÐIÐI/ERNIR
Gröfumaðurinn og bassaleikarinn Bjarki Hólmgeir Halldórsson, alltaf kallaður Bjarki Hall, var aðeins 10 ára þegar áhugi hans á mannshvörfum kviknaði. Núna, 24 árum síðar, ver hann mestöllum frítíma sínum í bókarskrif og í að leita uppi upplýsingar um íslensk mannshvarfsmál.

Þegar blaðamaður náði tali af Bjarka, á sunnudagseftirmiðdegi, var Bjarki að glugga í málsgögn frá árinu 1994 um hvarf tveggja drengja í Keflavík. „Ég var 10 ára gamall þegar þessir drengir týndust, þeir Júlíus Karlsson og Óskar Halldórsson. Það var náttúrlega mikið fjallað um þetta í fréttum og ég var forvitið barn og spurði mikið. Og ég man að það var talað um í fréttunum að þetta væri ein umfangsmesta leit sem gerð hefði verið á týndum einstaklingi síðan Geirfinnur hvarf í Keflavík 1974,“ segir Bjarki sem kveðst hafa verið forvitið barn.

„Þá fór ég eitthvað að spyrja foreldra mína út í þetta og mamma sagði mér að Geirfinnur hefði búið í kjallaranum hjá ömmu og afa í Keflavík, á Brekkubraut 15. Og þá fékk ég fyrst áhugann á þessu.“

Það var svo fyrir rúmu ári sem Bjarki datt og fótbraut sig illa. „Ég var um tíma bundinn við hjólastól og hafði ekkert að gera. Þá gat ég fyrir alvöru farið að eyða tíma í þetta,“ segir Bjarki sem opnaði vefsíðuna mannshvorf.com og Face­book-síðuna Íslensk mannshvörf til að stytta sér stundir.

Spurður út í hvernig honum datt í hug að setja vefsíðu á laggirnar segir Bjarki: „Ég hafði áður lesið málsgögnin í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum. En þegar ég var fótbrotinn fór ég aftur yfir málsgögnin og svo endurupptökuskýrslurnar með öðru hugarfari. Þegar ég fór í þetta aftur þá skráði ég hjá mér allt sem hét „aðrar ábendingar“, allt það sem sneri ekki að þeim sem voru dæmd til dæmis. Þannig vatt þetta upp á sig og ég fór að skoða önnur mannshvörf og skrá hjá mér upplýsingar.“

Forvitnin rak Bjarka áfram og áður en hann vissi af var hann kominn með stórt safn af alls konar upplýsingum. „Þá fór ég að hugsa: Til hvers er ég að þessu? Hvað á ég að gera við þetta? Þá datt mér í hug að setja upp Facebook-síðu og birta pistla þar og svo vefsíðu.“

Bjarki viðurkennir að það felist svo sannarlega mikil vinna í því að halda úti vefsíðu um íslensk mannshvörf. „Þetta er mikil vinna en ég er bara þannig gerður að ég þarf að hafa eitthvað fyrir stafni.“ Bjarki bætir við að hann sé ekki mikið fyrir sjónvarpsgláp eða tölvuleikjaspil.

Vefsíða Bjarka vakti fljótt athygli og hann fór að fá áskoranir um að gera eitthvað meira, jafnvel gefa út bók um íslensk mannshvörf. Til að byrja með hlustaði hann lítið á þær áskoranir. „Ég sá ekki fyrir mér að ég væri týpan til að setjast niður til að skrifa bók. Svo voru áskoranirnar orðnar það margar að mér fannst ég vera búinn að mála mig út í horn. Þá getur maður eiginlega ekkert gert annað en að taka af skarið.“

Núna er Bjarki langt kominn með handritið að bókinni sem kemur út 16. október. Í henni verður fjallað um 25-30 mál. „Bókin mun heita Saknað: íslensk mannshvörf frá 1930-2018. Orðið „íslensk“ leyfir mér að fjalla um bæði erlenda ríkisborgara sem hverfa á Íslandi og Íslendinga sem hverfa erlendis til viðbótar við Íslendinga sem hverfa á Íslandi.“

Mál sem fengu litla umfjöllun sitja í honum

Spurður út í hvort einhver mannshvarfsmál hafi sérstaklega vakið athygli hans síðan hann byrjaði að skrifa bókina Saknað segir Bjarki: „Já, það eru tvö mál sem hafa vakið mikinn áhuga hjá mér. Þetta eru mál sem fengu rosalega litla umfjöllun, það var aldrei leitað almennilega að þessum einstaklingum og eftirgrennslan var sáralítil. Það var t.d. aldrei auglýst eftir öðrum þeirra í blöðunum.

Þetta er annars vegar mál Kristins Ísfeld frá 1973. Það kemur á óvart hvað lítið var gert með það mál. Og hins vegar er það mál sem er ofboðslega dularfullt, það var færeyskur sjómaður sem hvarf hérna árið 1974, hann Willy Petersen,“ útskýrir Bjarki.

Aðspurður hvernig hann hafi farið að því að rannsaka þessi mál þegar það var lítið fjallað um þau á sínum tíma segir Bjarki: „Í seinni tíð hefur aðeins verið fjallað um hvarf Willys. Svo hef ég líka fundið upplýsingar í gegnum skrif Freyju Jónsdóttur blaðakonu. Hún var eiginlega sú fyrsta sem þorði að taka af skarið og fjalla um mannshvörf á Íslandi. Hún á mikinn heiður skilinn fyrir það. Hún fjallaði svolítið um hvarf Willys. En svo setti ég mig líka í samband við ættingja hans og hef verið að afla mér upplýsinga þannig.

Hitt málið, hvarf Kristins Ísfeld, var mál sem ég vissi ekki alveg hvernig ég ætti að snúa mér í. Hann var eina barn móður sinnar og var ófeðraður. Það var svolítil vinna að komast að því hvaða ættingjar hans væru nærtækastir. Eða hvort hann hefði yfir höfuð átt einhverja ættingja. Eftir töluverða vinnu þá fann ég ættingja sem þekktu hann og höfðu jafnvel tekið þátt í leitinni að honum. Sú leit var eingöngu, að því er virðist, framkvæmd af ættingjum. Þá fór að koma ýmislegt í ljós. Ég náði svo sambandi við menn sem höfðu verið samferða honum í skóla og fleira. Og málið er vissulega mjög dularfullt að mörgu leyti.“

Þessi tvö tilteknu mál sitja í Bjarka að hans sögn. En annars á hann erfitt með að nefna bara eitt eða tvö mannshvarfsmál þegar hann er spurður út í mál sem hafa fangað athygli hans sérstaklega. Hann tekur fleiri dæmi: „Það er eitt mál frá 1968. Þá hverfur maður í Kópavogi, Magnús Teitsson, eða Max Keil, eins og hann hét upphaflega. Svo er það Elísabet Bahr, hún hverfur árið ‘65. Hún er ein af fáum konum sem hafa horfið á Íslandi. Það er mál sem hefur ekki fengið mikla umfjöllun.“







Engar upplýsingar frá lögreglu

Bjarki hefur rekist á nokkrar hindranir síðan hann byrjaði að skrifa Saknað. Hann hefur til dæmis gert tilraun til að fá upplýsingar um mannshvörf frá yfirvöldum en það hefur gengið illa. „Það hefur ekki gengið vel að fá upplýsingar, sem sagt einhvern lista yfir horfna einstaklinga eða annað, frá lögreglu. Þar er engin hjálp. En þetta er í ferli núna fyrir kærunefnd upplýsingamála.

Svo hefur heldur ekki hjálpað að skoða gamlar greinar sem byggja á tölfræði yfir mannshvörf á Íslandi. Eftir að hafa lagst yfir þær tölur þá kemur í ljós að þær standast ekki. Sumar tölur eru langt frá því að standast. Það segir kannski að það hafi enginn horfið eitthvert tiltekið ár en það rétta er að þá hurfu kannski tveir.“

Þegar Bjarki er spurður út í af hverju hann haldi að það séu ekki til áreiðanleg gögn yfir mannshvörf á Íslandi segir hann: „Ég vil meina að utanumhaldi um mannshvörf á Íslandi sé og hafi alltaf verið ábótavant. Og það gæti útskýrt það af hverju lögreglan hefur engar upplýsingar til að deila með mér. Víðast hvar erlendis eru þessar upplýsingar aðgengilegar á netinu, einhver listi með lágmarks upplýsingum. Í rauninni er ég sá fyrsti á Íslandi sem tekur sig til og opinberar einhvern lista,“ útskýrir Bjarki. Þess má geta að umræddan lista kallar Bjarki Horfinnamannaskrá og hann er að finna á vef hans, mannshvorf.com.

Ættingjar horfinna einstaklinga fagna umræðunni

Bjarki vonar að bókin muni varpa nýju ljósi á einhver mál sem fjallað verður um. „Sum þessara mála líta þannig út að mögulega hafi eitthvað saknæmt átt sér stað á meðan önnur mál gætu átt sér sennilega skýringu – en hvað er sennileg skýring svo sem?

En ef einhver þarna úti ber ábyrgð á mannshvarfi þá ærir umræðan að sjálfsögðu óstöðugan. Hvort bókin verði til þess að mál upplýsast eða ekki, það er önnur saga. En það eru allavega ekki minni líkur á að mál upplýsist ef umræðan er til staðar. Og þeir ættingjar horfinna einstaklinga sem ég hef talað við, þeir hafa nánast undantekningarlaust fagnað umræðunni. Sérstaklega þeir sem tengjast málum sem hafa þótt sérstaklega skrýtin.“

Að lokum vill Bjarki benda fólki á að hafi það upplýsingar um íslensk mannshvörf geti það sent honum tölvupóst á netfangið mannshvarf@gmail.com. „Alveg sama hvaða upplýsingar það eru, það er allt vel þegið. Ég hef fengið talsvert af upplýsingum í tölvupósti en það hefur enn ekkert borist sem gæti í rauninni kollvarpað einhverju máli eða upplýst eitthvað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×