Innlent

Hvert einasta skópar á sína sögu: „Mér finnst þeir vera eins og ég vil hafa lífið“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar

Segja má að skórnir okkar gangi með okkur í gegnum bæði súrt og sætt á lífsleiðinni. Söngkonan Svanlaug Jóhannsdóttir hefur leitað uppi litrík skópör og í tilefni af konudeginum sem er í dag sagði hún sögu kvennanna sem áttu skóna á sérstökum tónleikum í Hannesarholti.

Einhverjir skónna eru úr persónulegri eigu Svanlaugar en önnur pör koma úr ýmsum áttum, meðal annars frá sjálfri Vigdísi Finnbogadóttur.

„Ég vildi bara segja fleiri kvennasögur. Mannkynssagan er mest skrifuð af karlmönnum og með karllægum gildum og ég vildi segja sögur frá konum og kvenlægum gildum,“ segir Svanlaug í samtali við Stöð 2.

Hugmyndin kviknaði með fyrsta parinu sem Svanlaugu áskotnaðist, fallegum silfurskóm sem hún fékk gefins frá vinkonu sinni. Skórnir voru í eigu dóttur eiganda Hressingarskálans á árum áður en Svanlaugu þótti áhugavert að velta fyrir sér hvernig það kynni að hafa haft áhrif á líf stúlkunnar sem átti skóna. Hún telur að jafnvel megi segja að lífið sjálft endurspeglist í skónum okkar.

„Mér finnst þeir bara vera eins og ég vil hafa lífið. Það er ævintýri, það er óvænt, það er litríkt, pínulítið spennandi,“ segir Svanlaug. Hvert skópar á jú sína sögu en Svanlaug tvinnaði einnig tónlist inn í frásagnirnar við undirleik píanóleikarans Einars Bjarts Egilssonar.

„Við segjum sögur. Ég hef talað við konurnar og heyrt sögurnar þeirra, svo túlka ég hana og prófa skóna og athuga hvernig er að stíga í spor annarrar manneskju, og svo syng ég lag sem mér finnst passa,“ segir Svanlaug.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.