Erlent

Forseti Írans segir landsmenn hafa rétt á að gagnrýna valdamenn

Kjartan Kjartansson skrifar
Rouhani (t.h.) ýjar að því að mótmælin í Íran hafi beinst að harðlínuöflum í landinu.
Rouhani (t.h.) ýjar að því að mótmælin í Íran hafi beinst að harðlínuöflum í landinu. Vísir/AFP
Hassan Rouhani, forseti Írans, segir að Íranar hafi rétt á að gagnrýna hvern sem er og kallar eftir því að aðgangur að félagsmiðlum sem lokað var á í tengslum við fjöldamótmæli verði opnaður aftur. Hann segir mótmælendur ekki aðeins hafa beint spjótum sínum að efnahag landsins heldur að pólitískum og félagslegum þáttum.

Ummæli forsetans um mótmælin sem brutust undir lok síðasta árs hafa verið túlkuð sem skot á íhaldsmenn í Íran. Rouhani hefur viljað auka borgararéttindi Írana og talað fyrir þýðu í samskiptum við önnur ríki.

„Það væru rangfærslur og einnig móðgun við írönsku þjóðina að segja að hún hafi aðeins verið með efnahagslegar kröfur. Fólkið hafði efnahagslega, pólitískar og félagslegar kröfur,“ segir Rouhani.

Upphaflega beindust mótmælin að dýrtíð og spillingu í landinu en fljótlega fór að bera á andófi gegn Ali Khameini, æðstaklerki og æðsta leiðtoga Írans. Kröfðust mótmælendur þess að hann segði af sér.

Rouhani sagði í dag að landsmenn ættu að vera frjálsir til að gagnrýna alla embættismenn án undantekninga, að því er segir í frétt Reuters.

„Enginn er saklaus og fólkið hefur leyfi til að gagnrýna hvern sem er,“ sagði forsetinn.

Hann hefur einnig vísað á bug kröfum harðlínumanna um að félagsmiðlar og samskiptaforrit verði varanlega bönnuð. Stjórnvöld lokuðu fyrir aðgang að vinsælum félagsmiðlum eins og Instagram og Telegram þegar mótmælin hófust.


Tengdar fréttir

Ekkert lát á mótmælum í Íran

Ekkert lát er á mótmælunum í Íran sem nú hafa staðið yfir tæpa viku. Írani sem er búsettur hér á landi segir að ástandið sé afar viðkvæmt og að viðbrögð stjórnvalda í Teheran muni ráða miklu um þróun mála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×