Körfubolti

Fyrrum WNBA leikmaður í Breiðablik

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Faris í leik í háskólaboltanum
Faris í leik í háskólaboltanum Vísir/Getty
Breiðablik hefur samið við bandaríska leikmanninn Kelly Faris um að leika með liðinu í Domino's deild kvenna í vetur. Um er að ræða mjög reyndan leikmann sem spilaði meðal annars í WNBA.

Faris er 27 ára bakvörður með gríðarlega reynslu. Hún lék með UConn í bandaríska háskólaboltanum í fjögur ár og varð tvisvar meistari með liðinu. Faris spilaði 154 leiki á fjórum árum í háskólaboltanum og hún vann 143 þeirra. Árið 2013 var hún valinn í úrvalslið deildarinnar.

Eftir útskrift úr skólanum árið 2013 var Faris valin 11. inn í nýliðaval WNBA. Hún lék 24 leiki með Connecticut Sun. Síðan þá hefur hún spilað í Ungverjalandi, Ástralíu og Ísrael.

„Hún er vinnuþjarkur og kemur til með að koma inn með reynslu og vinnusemi til Blikastúlkna. Ég treysti á að hún stjórni hraða bæði á æfingum og í leikjum. Hlutverk Kelly verður fyrst og fremst að leiða ungt lið Blika, enda kemur hún eins og áður sagði með mikla reynslu og vinnusemi,“ sagði Margrét Sturlaugsdóttir, þjálfari Blika, við heimasíðu félagsins.

Blikar voru nýliðar í Domino's deildinni á síðasta tímabili. Þær byrja nýtt tímabil gegn Snæfelli á heimavelli 3. október.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.